fbpx
Eyjan

Ef þú veifar myndum af Maó – 50 frá maí 68

Egill Helgason
Þriðjudaginn 1. maí 2018 10:38

Það er til fræg saga af því að kínverski kommúnistaleiðtoginn Sjú En Lai hafi sagt í matarboði með vestrænum stjórnmálamönnum að enn væri of snemmt að segja til um áhrif frönsku byltingarinnar. Þetta hljómar eins og mikil speki, en sagan verður aðeins öðruvísi þegar greint er frá því að Sjú átti líklega við stúdentabyltinguna í París 1968. En það er samt rétt að arfleifð hennar er flókin.

Stúdentabyltinguna sjá margir í rómantísku ljósi. Hún var auðvitað engin bylting, heldur uppreisn sem breiddist út um Frakkland. Stúdentarnir í París byrjuðu, lögðu undir sig háskóla, svo brutust út mikil verkföll. Franska stjórnin riðaði til falls. Róttækir stúdentar sáu von um byltingu í því að verkamenn gengu að nokkru leyti til liðs við þá.

Landsfaðirinn De Gaulle forðaði sér til franskrar herstöðvar í Þýskalandi. Það var ekki mikil reisn yfir því. En forsetinn sneri aftur og í kosningum um sumarið vann flokkur hans stórsigur í kosningum. En Du Gaulle hvarf frá völdum vorið eftir og lést 1970. Hann var talinn of gamall og úr takti við tímann.

Uppreisnarmenn meðal stúdenta aðhylltust blöndu af anarkisma, sósíalisma og kommúnisma. Þeir voru undir áhrifum frá baráttunni gegn Vietnamstríðinu. Stúdentamótmæli breiddust út um öll Vesturlönd og alla leið til Japan. Sumpart var þetta dálítið skrítið – þarna var komin kynslóð sem hafði allt til alls.

Foreldrar hennar höfðu upplifað kreppu og heimsstyrjöld. Þessi ungmenni nutu öryggis frá bernsku, þau gátu gengið óhindrað í skóla, sagt er að jöfnuður hafi aldrei verið meiri á Vesturlöndum. Það voru orðin til velferðarkerfi, allar gátu notið heilbrigðisþjónustu. Þau höfðu meira að segja miklu sterkari menningu en fyrri kynslóðir ungmenna – á tíma 68-uppreisnarinnar sungu Rolling Stones Street Fighting Man og Bítlarnir Revolution.

Í því lagi segir reyndar – ef þú ferð að veifa myndum af Maó formanni, þá er ég ekki með. 68 uppreisnin leystist upp í einkennilegar pólitískar fylkingar. Öfgafyllstir voru maóistar og trotskíistar, og svo voru hópar sem ætluðu að kollvarpa samfélaginu með hryðjuverkum eins og Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildirnar á Ítaliu.

En meðfram er 68 stór áfangi í baráttunni fyrir auknu frelsi einstaklingsins, kynfrelsi og kvenfrelsi – frelsi til að vera maður sjálfur eins og það var orðað. Það er samt dálítið kyndugt að 68 uppreisninni var að hluta til beint gegn neysluhyggjunni sem þá var að leggja undir sig Vesturlönd. En 68 kynslóðin – eða baby boomers eins og það heitir á ensku – varð síðan neyslufrekasta kynslóð sögunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum