fbpx
Eyjan

Samferðamaður Kollu

Egill Helgason
Mánudaginn 30. apríl 2018 11:11

Eitt lán mitt í lífinu er að hafa verið samferðamaður hennar Kollu. Ég meina Kolbrúnar Bergþórsdóttur. Kolla er alin upp í sama hverfi og ég, hún bjó á Hringbrautinni, ég á Ásvallagötunni. Ég held hún hafi verið ári á undan mér í skóla. Við fórum fyrst að tala saman á Mokka þegar við vorum unglingar, bæði fjarska bókhneigð – ég þykist samt viss um að Kolla las miklu fleiri bækur en ég. Hún hefur aldrei slegið slöku við í lestrinum.

Svo unnum við saman á Alþýðublaðinu. Það var skemmtilegur og svolítið undarlegur tími. Við vorum þarna dálítið stórir karakterar, Kolla, ég, Jakob Bjarnar – ritstjórinn var sjálfur Hrafn Jökulsson. Þetta var ekki stórt blað og kom út í fáum eintökum – í tengslum við eitthvað átak var farið að skoða skrána yfir áskrifendur og niðurstaðan var sú að drjúgur hluti þeirra var látinn. Samt er þetta einhver besti fjölmiðill sem ég hef unnið á. Í strákskap mínum á þessum árum skrifaði ég smásögu sem byggði dálítið á Kollu, hún fékk verðlaun í samkeppni hjá Listahátíð.

Ég stelst til að láta þessa mynd fylgja með. Hún er úr bók sem nefnist Óður og er eftir Davíð Þorsteinsson, kennara og ljósmyndara. Þarna erum við Kolbrún hvort á sinni síðunni á Mokka 1988 – fyrir 30 árum.

 

 

Kolbrún hefur verið samferða mér í Kiljunni síðan frá upphafi, þetta er orðinn meira en áratugur. Hún er afburða fínn greinandi bókmennta, fljót að koma auga á aðalatriðin og segja frá þeim í mæltu og skiljanlegu máli. Hún les hratt en ég hef líka skynjað að hún les mjög vandlega.

Kolla er líka afburða blaðamaður. Hún tekur betri viðtöl en aðrir blaðamenn sem nú eru uppi. En hún er stöðugt á faraldsfæti í blaðamennskunni, er nýkomin á Fréttablaðið frá DV. Var áður á Mogganum og þaráður á Fréttablaðinu. Og svo var Alþýðublaðið og einhver dáin blöð sem ég man ekki að nefna.

Kolla hefur aldrei tekið bílpróf. Hún gengur sinna ferða eða tekur strætó. Hins vegar er það svolítið ljóðrænt að hún svaraði einu sinni í símann hjá leigubílastöð Steindórs sem var þar sem Ingólfstorg er nú. Kolla skrifar þennan ágæta leiðara um göngugötur í Fréttablaðið í dag.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum