fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Áhrif Alþingis eru í raun sáralítil

Egill Helgason
Föstudaginn 27. apríl 2018 22:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingi hefur sjaldan haft minni völd en nú. Þetta sagði við mig í vikunni maður sem þekkir afar vel til í íslenskri stjórnsýslu. Þingmenn geta dundað sér við að leggja fram eitt og eitt mál – eitthvað smávegis af því fæst samþykkt – og svo eru hinar eilífu fyrirspurnir í þinginu sem fæstar breyta neinu.

Ein af skýringunum á þessu – fyrir utan þá gömlu sögu að framkvæmdavaldið er frekt og treystir ekki þingmönnum – er sú að ofan á fjárlög hefur nú bæst fjármálaáætlun sem er gert til fjögurra ára. Hún er samin í fjármálaráðuneytinu. Í áætluninni sem nú er í gildi er markaður rammi fram til 2022. Þetta takmarkar ekki bara áhrif þingsins, heldur líka annarra ráðherra sem skynja glöggt valdaleysi sitt og vita að þeir fá litlu breytt.

Þannig er fjármálaráðherrann í raun aðal, og ekki síst þegar hann er líka formaður voldugasta stjórnarflokksins sem hefur tögl og hagldir í ríkisstjórninni.

Á sama tíma og áhrifaleysi þingsins eykst er stöðugt verið að bæta launa- og starfskjör þingmanna. Að því leytinu er þetta betra djobb en áður. Það stendur líka til að bæta við 6000 þúsund fermetra skrifstofubyggingu í þinginu, þannig að sú aðstaða batnar líka.

En þetta gengur þvert gegn heitstrengingum sem voru uppi eftir hrun um að efla Alþingi og hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Afar lítið hefur þokast í þá átt.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt