fbpx
Eyjan

Kvöldstund í Hafnarfirði

Egill Helgason
Þriðjudaginn 24. apríl 2018 12:03

Er ég góður ljósmyndari? Ég veit það ekki, það er ekki gott að segja með það. Maður er með síma á lofti – þeir innihalda býsna fullkomnar myndavélar miðað við það sem maður þekkti á yngri árum, maður getur súmmað inn og út o.s.frv – tekur fullt af myndum og grísast til að taka eina og eina sem er góð. En myndasmíði mín batnaði eftir að ég fór líka að gefa skýjafarinu gaum.

En altént, ég er nokkuð ánægður með þessa mynd sem ég tók í gærkvöldi á norðurbakkanum í Hafnarfirði. Þarna siglir togari út í kvöldbirtunni og lóðsinn fylgir honum. Til hægri sést í Álftanesið.

Sjálfur fer ég oft í Hafnarfjörð. Það er gamall vani – þegar ég var strákur fór fjölskyldan í bíltúra í Hafnarfjörð. Kannski tengdist það því eitthvað að langamma mín bjó í Hafnarfirði – það var fyrir mína tíð – hún hét Valgerður Jónsdóttir og var móðir Ingibjargar ömmu minnar og Jóns Helgasonar prófessors. Valgerður flutti í Hafnarfjörð með börnin eftir lát langafa míns, Helga Sigurðssonar á Rauðsgili. Á þeim var mikill aldursmunur. Ég hef stundum sagt Hafnfirðingum að þeir eigi dálítið í skáldinu Jóni, en þeir þekkja fæstir þá sögu.

Annars eru frægustu rithöfundar Hafnarfjarðar Guðrún Helgadóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Magnús Ásgeirsson ljóðaþýðandi, að ógleymdum Stefáni Júlíussyni sem skrifaði bækurnar um Kára litla og lappa. Þær gerast í Hafnarfirði. Þetta var uppáhaldsbókin mín þegar ég varð fyrst læs, þangað til Óli Alexander kom til skjalanna.

Sá Hafnarfjörður sem ég man fyrst eftir var bær með gamla fallega höfn og karla sem komu þangað niðureftir úr byggðinni í hraunbollunum að skima eftir skipaferðum. Þá fannst manni eins og þetta væri fallegasta bæjarstæði á Íslandi. Bærinn hefur gerbreyst vegna ýmissa stórframkvæmda, það er akbraut meðfram höfninni og milli Strandgötunnar og hafnarinnar reis mikið ferlíki, verslunarmiðstöð sem nefnist Fjörður. Útlit hennar hefur elst vægast sagt illa og hún er eins og tálmi milli bæjarins og hafnarinnar.

Í raun ætti að búa henni sömu örlög og stórhýsinu við Lækjargötu í Hafnarfirði sem hét því undarlega nafni Dvergur – það ætti einfaldlega að rífa hana. Þannig væri hægt að endurheimta að einhverju leyti hið gamla svipmót bæjarins.

En að því sögðu eru margar fallegustu götur landsins í Hafnarfirði. Austurgatan er kannski fegursta gata landsins. Meðfram Norðurbakkanum standa blokkir sem eru umdeildar, en það er gaman að ganga þar út með, þarna var í gærkvöldi fólk að renna fyrir fisk – ég sá það draga að landi nokkra þyrsklinga – og svo er með eindæmum falleg sýn út fjörðinn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum