fbpx
Eyjan

Les einhver Laxness lengur?

Egill Helgason
Mánudaginn 23. apríl 2018 15:55

Á þessum degi er hinn svokallaði Dagur bókarinnar. Hann mun vera upprunninn í Katalóníu, en það vill svo til að hann ber upp á afmælisdag Halldórs Laxness. Les einhver Halldór Laxness lengur? Svo er spurt á umræðuþræði á Facebook. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifar:

Í dag er Dagur bókarinnar og afmælisdagur Halldórs Laxness. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að framhaldsskólakennarar séu að gefast upp á að láta nemendur lesa bækur eftir Laxness því þeir skilja þær ekki eða geti ekki tengt við þær.

Þegar ég var að alast upp þótti jafn sjálfsagt að lesa Laxness og anda eða drekka vatn. Allir lásu Laxness. Hann var viðurkenndur sem algjör yfirburðamaður. Og jú, hann er mesti rithöfundur Íslands fyrr og síðar – ásamt með Snorra. Ég held satt að segja að ég hafi lesið nánast hvern einasta útgefinn stafkrók eftir hann – nema kannski eitthvað af leikritunum.

Nú er nýkomið út safn með ritgerðum eftir Halldór, nefnist Landkostir og fjallar meðal annars um náttúruvernd, umhverfismál og skipulag bæja – þetta er stórkostleg lesning og margt þar sem á furðulega vel við enn.

 

 

Eitt sem menn setja fyrir sig er stafsetningin. Halldór skrifaði íslensku með sínu sérviskulega lagi. Maður heyrir að ungu fólki þyki þetta vera hindrun. Sjálfur las ég Gerplu með nútímastafsetningu fyrir fáum árum – ég fann ekki að það skaðaði lestrarupplifunina á neinn hátt.

Þá er líka spurningin um hversu aðgengilegar bækur Halldórs eru og hvar sé best að byrja. Ólafur Ragnarsson gerði gríðarlegt átak í að koma bókum Halldórs út á meðal þjóðarinnar þegar hann var útgefandi Nóbelskáldsins. Bækurnar voru endurútgefnar og sölumenn fóru um allt land með staflana.

En nú hefur orðið sú breyting að ekki þykir lengur fínt að hafa bækur í húsum. Maður sér í blöðum og sjónvarpi fjallað um innanhússhönnun – það er sameiginlegt einkenni að hvergi sést bók, nema kannski ein og ein kaffiborðsbók til skrauts.

Það er liðinn nokkur tími síðan Ólafur vann sitt mikla verk í bókaútgáfu – kannski þarf að gera meira til að koma verkum Kiljans til nútímalesenda í handhægum og fallegum útgáfum. Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi sagði fyrir fáum árum að verk Halldórs seldust sorglega lítið.

Og hvar er þá best að byrja? Nú játa ég fáfræði mína og spyr – hvað er lesið af bókum Halldórs í skólum? Fyrir ungt fólk held ég að sé heppilegast að lesa fyrst Sölku Völku – það er brennandi ástarsaga með tilheyrandi harmi  og heillandi ungri sögupersónu. Svo Atómstöðina, hún er ekki löng, dálítið súrrealísk. Og þá má leggja í stærri verkin: Sjálfstætt fólk og Heimsljós.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum