fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Tvö ný framboð bara í dag

Egill Helgason
Sunnudaginn 22. apríl 2018 20:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er auðvitað réttur hvers og eins að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa í lýðræðisríki, en borgarstjórnarkosningarnar í næsta mánuði stefna í að verða algjört bíó. Það er af sem var hér um árabil þegar var nóg að setja fram tvo stóla í kosningasjónvarpinu, annan fyrir Sjálfstæðismanninn og hinn fyrir foringja R-listans.

Nei, það hefur orðið gjörbreyting á viðhorfunum til borgarstjórnarinnar. Maður er eiginlega að missa töluna á hversu margir ætla að vera í framboði. Vegna fjölgunar borgarfulltrúa þurfa að vera 46 manns á hverjum lista, þannig að ef framboðin eru 20 þá höfum við 920 frambjóðendur. Það eru næstum jafnmargir og taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. (Gæti reyndar verið skemmtilegt að láta frambjóðendurna þreyta hlaup!)

Mér sýnist að hafi fjölgað um tvö framboð bara í dag. Þar er annars vegar framboð Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur sem hefur vinnuheitið Borgin okkar, Reykjavík. Sveinbjörg hleypti kosningunum fyrir fjórum árum í loft upp með því að láta þær snúast um moskubyggingu. Hins vegar er svo karlalisti sem sagt er að muni einblína á réttindi feðra og drengja.

Áður hefur verið kunngjörður kvennalisti sem ætlar að bjóða fram, þótt horfur séu á að konur verði í miklum meirihluta í borgarstjórn og femínískar áherslur séu mjög áberandi innan margra flokka.

Frelsisflokkurinn er klofningur úr Íslensku þjóðfylkingunni – fannst hún ekki nógu rótttæk. Báðar hreyfingarnar virðast ætla að bjóða fram. Sósíalistaflokkurinn býður fram þótt hann sé stefnulega séð ekki langt frá Alþýðufylkingunni. Sósíalistarnir eru þó aðeins ferskari en Alþýðufylkingin sem hefur verið lengi að með sama fólk.

Svo er það Höfuðborgarlistinn sem varð til út frá óánægju með framkvæmdir í Smáíbúðahverfi. Miðflokkurinn sem keyrir á víkingaauglýsingum með Vigdísi Hauksdóttur. Það eru auglýsingarnar sem hafa vakið mesta athygli hingað til, en ekki eru allir á eitt sáttir um gildi þeirra.

Framsókn sem er með flugmann í fyrsta sæti, leggur áherslu á flugvöllinn, en heitir samt ekki lengur flugvallarvinir. Píratar sem eru farnir að virka eins og gamalgróið stjórnmálaafl miðað við allt þetta. Flokkur fólksins sem var reyndar alltaf að stefna á þessar kosningar – þegar þingkosningar duttu óvænt í kjöltu Ingu Sæland. Viðreisn sem menn pæla í hvort geti hlaupið undir bagga hjá Degi. Vinstri græn sem líkt og halda sig frekar til hlés, eru náttúrlega í ríkisstjórn með íhaldinu.

Sjálfstæðisflokkurinn með Eyþór og Samfylkingin með Dag – með alla þessa flokka verður þetta varla neitt einvígi milli þeirra.

Það þarf heldur ekki svo mörg atkvæði til að ná inn manni, einungis um 4 prósent. Það er ekki svo mikill fjöldi manns ef horft er til þess að í síðustu borgarstjórnarkosningum var kjörsóknin eingöngu 62 prósent. Það verður gaman í sjónvarpinu þegar reynt verður að leiða alla þessa frambjóðendur og öll þessi sjónarmið saman. Ef framboðin eru 15 getur hver talað í 4 mínútur – og þá er þátturinn orðinn klukkutími.

Það eru annars ekki nema 35 dagar til kosningar. Furðu rólegt miðað við það. Að minnsta kosti er ekki enn mikið verið að reyna að ná í okkur kjósendurna, ekki enn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“