fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Píratar um Ármann Kr: „Viljandi skrumskæling á augljósum mistökum í stjórnsýslu bæjarins“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 20. apríl 2018 11:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Píratar í Kópavogi gagnrýna framkomu Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra í Kópavogi, harðlega í yfirlýsingu í dag. Segja þau Ármann hafa sett niður með framkomu sinni í fjölmiðlum í máli Guðmundar R. Einarssonar og Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, sem voru rukkuð af bænum um milljón krónur, vegna greiðslu bæjarins í dánarbú föðurs Guðmundar, sem þó hafði verið lokað. Guðmundur fékk þó aldrei þá greiðslu og er lögmæti aðgerðar Kópavogsbæjar því ansi vafasamt.

Segja Píratar að Ármann hafi viljandi „skrumskælt“ augljós mistök  í stjórnsýslu bæjarins, sem geti ekki verið boðleg framkoma. Þá hafi Ármann sýnt mikla vanvirðingu í málinu og ítrekað farið með rangt mál í fjölmiðlum, gegn betri vitund.

Lesa má yfirlýsinguna hér:

„Píratar í Kópavogi harma vinnubrögð bæjarstjóra Kópavogsbæjar í samskiptum við hjónin Guðmund R. Einarsson og Lilju Katrínu Gunnarsdóttur að vegna greiðslna sem skráðar voru á dánarbú föður Guðmundar.

Kjarnastefna Pírata er að allt vald skuli nálgast af virðingu og af auðmýkt gagnvart öllum umbjóðendum. Okkur þykir augljóst að slík nálgun hafi verið víðsfjarri í þessu tiltekna máli. Píratar í Kópavogi vilja því minna bæjarstjóra á þá miklu ábyrgð sem honum er falin í umboði íbúa.

Bæjarstjóra, Ármann Kr. Ólafsson, setur niður með framkomu sinni í fjölmiðlum, hegðun sem engum fulltrúa sem annt er um umbjóðendur sína sýnir. Eitt af kjarnagildum Pírata eru að að kjörnir fulltrúar mega ekki nota stöðu sína til að níða skóinn af almenningi. Hvað þá íbúum sem eingöngu leitast eftir sanngirni og kurteisi í framkomu af hálfu stjórnsýslu og bæjarstjóra.

Málið er raunar allt hið undarlegasta en þau hjónin voru rukkuð um milljón króna vegna greiðslu frá Kópavogsbæ á kennitölu dánarbús föðurins. Guðmundur og Lilja fengu þó aldrei þá greiðslu en í ljós kom að bærinn hafði greitt inn á vörslureikning lögmanns fyrrverandi eiginkonu hins látna en hann var sannarlega einhleypur og skráður sem slíkur þegar hann lést. Einnig hefur komið fram að Kópavogsbær greiddi fé inn á reikning aðila sem ekkert tilkall átti til þess.

Að bæjarstóri skuli hafa kallað konuna „ekkju” opinberlega í viðtali í Bítinu á Bylgjunni á dögunum, þrátt fyrir að vita betur er lýsandi fyrir samskipti Guðmundar og Lilju við stjórnsýslu bæjarfélagsins, sérstaklega þá bæjarstjóra.

Viljandi skrumskæling á augljósum mistökum í stjórnsýslu bæjarins opinberlega getur aldrei verið boðleg framkoma að hálfu nokkurs, hvað þá æðsta manni þess, bæjarstjórans Ármanns Kr. Ólafssonar.

Guðmundur, sonur hins látna, vakti fyrst athygli í á málinu með Facebookfærslu og hefur það síðan ratað í fjölmiðla. Faðir hans lést á harmrænan hátt og andlátið hefur haft djúpstæð áhrif á fjölskylduna. Þetta mál hefur því ýft upp gömul sár sem vart voru gróin.

Framkoma bæjarstjórans og lögfræðinga hefur opinberað djúpstæða gjá á milli íbúa Kópavogs og stjórnsýslunnar að vinna með íbúum í sameiningu, með skilning og auðmýkt í samskiptum.

Ármann hefur sýnt mikla vanvirðingu og tók steininn úr þegar hann fór ítrekað með rangt mál í Bítinu og sakaði Guðmund og Lilju um dónaskap í sinn garð í beinni útsendingu.

Hjónin hafa einfaldlega óskað eftir afsökunarbeiðni vegna mistaka Kópavogsbæjar á sínum tíma varðandi greiðsluna, að tillit sé tekið til aðstæðna og beðið um skilning á persónulegum grundvelli, en þvi hefur verið mætt af tómlæti.

Í bréfi sínu til Ármanns sagði Guðmundur: „Þið hafið dregið mig og konuna mína í gegnum helvíti seinustu mánuði vegna mistaka hjá ykkur og að þið getið ekki sagt afsakið er mér óskiljanlegt.”

Bæjarstjóri svaraði ekki því bréfi, en áður hafði lögfræðingur bæjarins hótað hjónunum dómsmáli vegna málsins.

Við Píratar í Kópavogi leggjum áherslu á virðingu í samskiptum við alla bæjarbúa og þykir forkastanlegt að bæjarstjóri og lögfræðingar sveitarfélagsins hagi sér á þennan hátt gagnvart íbúum sem eiga um sárt að binda.

Íbúar Kópavogs eru ekki bara kennitölur á blaði heldur fólk af holdi og blóði sem hefur mannlegar tilfinningar og eiga heimtu að komið sé fram við af virðingu.
Við skorum á Ármann Kr. Ólafsson að bregðast við, endurskoða eigin afstöðu og sýna hér þá auðmýkt sem Kópavogur allur býst við.

Samskipti á þessum grunni skaðar Kópavog, ekki bara stjórnsýslu og bæjarstjóra heldur þá einlægu trú okkar flestra að að Kópavogur sé sannarlega bæjarfélag þar sem virðing, samkennd og umhyggja fyrir náungann er í fyrirrúmi í öllum stigum samfélagsins.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, 1. sæti Pírata í Kópavogi
Hákon Helgi Leifsson, 2. sæti Pírata í Kópavogi
Ásmundur Alma Guðjónsson, 3. sæti Pírata í Kópavogi“

 

Árétting frá Kópavogsbæ

Greiðsla makalauna (lausnarlauna) er einungis greidd til eftirlifandi maka en ekki til dánarbús. Greiðslan er greidd í nafni hins látna. Makalaun er  greidd til eftirlifandi maka samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Í umræddu tilfelli féllst Kópavogsbær á að greiða makalaun að undangenginni rannsókn og á grundvelli upplýsinga sem lagðar voru fram vegna málsins og sýndu fram á réttmæti kröfu sem gerð var f.h. eftirlifandi maka. Við útgreiðslu makalaunanna stóð Kópavogsbær skil á sköttum líkt og við hefðbundna launagreiðslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega