fbpx
Eyjan

Rekstur 25 sendiráða og aðalskrifstofu kostar fimm milljarða

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 16. apríl 2018 18:45

Í nýútkominni skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kennir venju samkvæmt ýmissa grasa. Í skýrslunni er bryddað upp á því nýmæli að hafa upplýsingar um hverja sendiskrifstofu og birtar eru tölfræðiupplýsingar um hlutfallslega skiptingu verkefna, viðskipti, starfsfólk og kostnað. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.Þá er kostnaður við rekstur 25 sendiráða í 21 landi sagður hafa lækkað hlutfallslega, á liðnum árum, en hann nemur nú fimm milljörðum.

„Framlög til sendiskrifstofa og aðalskrifstofu utanríkisþjónustunnar (án þýðingamiðstöðvar og
Íslandsstofu) nema fimm milljörðum króna eða 0,61% af A-hluta fjárlaga. Eru þessi framlög lægri
hlutfallslega en undanfarin ár, en þau námu 0,7% árin 2007 og 2012, svo dæmi séu tekin. Framlögin til sendiskrifstofa og aðalskrifstofu hafa einnig lækkað sem hlutfall af framlögum til utanríkismála síðan 2012, en þá var hlutfallið 40%, en er nú ríflega 32%.“

Þá fær utanríkisráðuneytið alls tæpa 15 milljarða á þessu ári samkvæmt skýrslunni:

„Framlög til utanríkisráðuneytisins á fjárlögum 2018 nema samtals 14.961 m.kr. eða um 1,8% af A-hluta fjárlaga. Þar af rennur u.þ.b. helmingur eða 6.971 m.kr. til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana. Framlög til utanríkisþjónustunnar, þ.e. aðalskrifstofu ráðuneytisins, þýðingamiðstöðvar, sendiskrifstofa og Íslandsstofu nema 5.859 m.kr. eða 40% af fjárlögum ráðuneytisins og um 0,7% af A-hluta fjárlaga.“

 

Á vegum utanríkisþjónustunnar eru nú starfandi 25 sendiskrifstofur í 21 landi. Sautján þeirra eru tvíhliða sendiráð, fjórar fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og fjórar aðalræðisskrifstofur. Um eitt hundrað manns starfa í þessum sendiskrifstofum, þar af eru útsendir starfsmenn rétt yfir fimmtíu. Verkefni sendiskrifstofanna eru bæði fjölbreytt og flókin og þar sem flestar þeirra eru harla fáliðaðar þarf starfsfólkið að bera marga hatta. Í tengslum við stefnumótunarvinnu sem utanríkisráðherra gekkst fyrir í fyrra og lýst er í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar, hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi hafa áherslur sendiskrifstofanna verið skerptar og verkefni þeirra skilgreind betur.


Í þessu sambandi er fróðlegt að líta til einstakra sendiskrifstofa og hversu ólík verkefni þeirra eru. Hér eru tekin af handahófi þrjú sendiráð og ein fastanefnd í fjórum borgum: Kaupmannahöfn, Nýju-Delí, Peking og New York.

Sendiráðið í Kaupmannahöfn var stofnað árið 1920 og er elsta sendiráð íslensku utanríkisþjónustunnar. Yfir 10 þúsund Íslendingar búa í Danmörku en auk þess býr mikill fjöldi Íslendinga í suðvesturhluta Svíþjóðar, nærri dönsku höfuðborginni. Því kemur ekki á óvart að borgaraþjónusta er viðamesti þátturinn í starfsemi sendiráðsins. Menningarmálin skipa líka sinn sess enda eru söguleg og menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur afar náin. Sex starfsmenn sinna þessum verkefnum, þar af eru tveir útsendir diplómatar. 

Allt annað er uppi á teningnum í Nýju-Delí á Indlandi. Borgaraþjónusta er aðeins örlítill hluti starfseminnar en í staðinn ber viðskiptaþjónusta höfuð og herðar yfir önnur verkefni sendiráðsins. Þetta er í samræmi við þá staðreynd að indverska hagkerfið er í geysilega örum vexti og tækifæri á sviði viðskipta og landkynningar ómæld. Fámennt en öflugt lið sinnir þessum verkefnum, auk sendiherrans eru þrír staðarráðnir starfsmenni.

Rétt eins og Indland er Kína stöðug uppspretta hagvaxtar og nýrra tækifæra en landið telst nú þegar annað stærsta hagveldi heims. Viðskipti Íslands og Kína hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Viðskiptaþjónusta er því snar þáttur í starfsemi sendiráðs Íslands í Peking. Veigamesti þátturinn tengist hins vegar vegabréfsáritunum og sker sendiráðið sig úr í þeim efnum. Þetta endurspeglar þá staðreynd að ört vaxandi millistétt Kína hefur nú ráð á að ferðast heimshorna á milli og þannig heimsóttu um eitt hundrað þúsund kínverskir ferðamenn Ísland í fyrra. Sjö starfa í sendiráðinu í Peking, þar af tveir útsendir diplómatar.


Fastanefnd Íslands í New York ber ábyrgð á þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum og tekur þátt í þeirri starfsemi samstakanna sem fram fer í borginni. Fastanefndin beitir sér sérstaklega fyrir mannréttindum, jafnrétti og sjálfbærri nýtingu auðlinda á fundum allsherjarþingsins og sex undirnefnda þess. Af þessum sökum er starfsemi fastanefndarinnar gerólík sendiráðanna þriggja. Tvíhliða- og fjölþjóðasamskipti eru í fyrirrúmi en auk þess eru öryggis- og varnarmál og þróunarmál ríkur þáttur í starfseminni. Sex og hálft stöðugildi eru í íslensku fastanefndinni í New York, þar af eru útsendir starfsmenn fjórir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Dómsmálaráðherra segir „mikla ánægju“ með þróun mála hjá lögreglunni – Biggi lögga orðlaus

Dómsmálaráðherra segir „mikla ánægju“ með þróun mála hjá lögreglunni – Biggi lögga orðlaus
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Uppruni þórðargleðinnar

Uppruni þórðargleðinnar
Eyjan
Í gær

Vigdís heimfærir OR málið upp á Reykjavíkurborg: „Á ekki bara að eiga við þegar karlmenn brjóta á rétti kvenna – heldur líka þegar konur brjóta á rétti karla“

Vigdís heimfærir OR málið upp á Reykjavíkurborg: „Á ekki bara að eiga við þegar karlmenn brjóta á rétti kvenna – heldur líka þegar konur brjóta á rétti karla“
Eyjan
Í gær

Murakami kippir fótunum undan Nýja Nóbelnum

Murakami kippir fótunum undan Nýja Nóbelnum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leggur til að mannanafnanefnd verði lögð niður – Frjálst val við nafngift – Ný viðbót við -son og -dóttir

Leggur til að mannanafnanefnd verði lögð niður – Frjálst val við nafngift – Ný viðbót við -son og -dóttir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fullyrti það að Sigmundur hefði haft einn aðstoðarmann – Þeir voru í reynd sjö

Fullyrti það að Sigmundur hefði haft einn aðstoðarmann – Þeir voru í reynd sjö