fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Pírati spyr um ósamræmi í fermingarlögum – Er meginþorri ferminga ólöglegar?

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 16. apríl 2018 15:06

Olga Margrét Cilia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra er varðar ósamræmi laga um fermingaraldur og trúfélagsskráningu.

Fyrirspurning er í þremur liðum og fjallar sá fyrsti um það ósamræmi er felst í því að hér á landi fermist  börn 14 ára, meðan réttur einstaklings til að ákvarða eigin trúfélag er bundinn við 16 ára aldur. Þá spyr Olga hvort til standi að breyta ákvæðunum:

„Ég er að leitast eftir hvort ekki þurfi að endurskoða þessa hefð eða venju sem myndast hefur við að ferma 13 ára börn og hvort ekki þurfi að samræma aldurstakmörk. Nú kjósum við 18 ára, borgum skatta 16 ára, en fermum 13 ára. Mér datt þetta í hug í kjölfarið á umfjölluninni á lögum um kosningarétt, mörgum þótti 16 ára of ungt til að kjósa og þá fór ég að velta því fyrir mér hvort það væri eitthvað minni ákvörðun að fermast 13-14 ára ?“

Í þriðja lagi spyr Olga hvort til standi að fella úr gildi tilskipun frá 1759 sem segir að börn skuli ekki fermast fyrr en þau eru orðin „fullra 14 eða 15 ára,“ en ljóst er að þeirri tilskipun hefur ekki verið framfylgt á Íslandi, þar sem stór hluti fermingarbarna hvers árgangs er aðeins 13 ára við fermingu.

„Við athuguðum þetta og samkvæmt skrifstofu Alþingis eru þetta einu gildandi lögin um ferminguna. Tilskipunin gengur út frá því  að börn séu orðin fullorðin við fermingu og því er fermingin eins konar formsatriði,“

sagði Olga við Eyjuna.

Samkvæmt  annarri tilskipun frá 1827 er biskupum heimilt að veita undanþágu frá 14 ára aldursmarki, með takmörkunum þó og spyr Olga hvort eigi að breyta þessum öldnu tilskipunum eða fella þær úr gildi. Ef ekki, þá hvers vegna.

 

Eyjan veit ekki til þess að slík mál hafi ratað fyrir dómstóla svo hægt sé að skera úr um lögmæti ferminga gagnvart Þjóðkirkjunni, en látið var reyna á það fyrir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar árið 2016 í máli nr. 2/2016 hvort ferming einstaklings hafi verið ólögleg, þar sem hann hafi verið þrettán og hálfs árs þegar fermingarathöfn fór fram.

Varla þarf að koma á óvart að í úrskurði nefndarinnar var komist að þeirri niðurstöðu að sú framkvæmd að ferma börn á 14. aldursári væri orðin venjuhelguð af áratuga framkvæmd. Væri því ekki um brot á lögum að ræða.

Segir m.a. í úrskurðinum:

„Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur því að þó svo að tilskipunin frá 1759 geri ráð fyrir að fermingarbarn sé fullra 14 ára þá hafi tilskipunin frá 1827 heimilað biskupum að veita undanþágur frá því aldursmarki. Í byrjun 20. aldar hafi í vaxandi mæli verið farið að veita þessar undanþágur þannig að börn á 14. ári væru fermd jafnvel þó heimildir tilskipunarinnar frá 1827 til undanþága væru takmarkaðar. Slík almenn heimild hafi síðan verið samþykkt með samþykkt prestastefnu 1931, kirkjuráðs 1932 og formlegri kynningu á prestastefnu 1933. Þessi almenna undanþáguheimild er áréttuð með bréfum biskupa Íslands 1953 og 1954 og í Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing samþykkti 2009 er skýrt miðað við að börn á 14. aldursári megi ferma. Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur að þegar málshefjandi var fermdur […] 1997 hafi það verið orðið venjuhelgað af áratuga framkvæmd að börn mætti ferma á 14. aldursári. Samþykkt Námskrá fermingarstarfanna frá 1999 og Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar frá 2009 styrkja enn frekar þá niðurstöðu.“

Úrskurðarnefnd starfar á grundvelli 12. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997.

 

Fyrirspurn Olgu:

1.       Telur ráðherra ósamræmi felast í því að fermingaraldur er bundinn við þann sem verður 14 ára á árinu en réttur til að skrá sig í trúfélög og úr þeim er bundinn við 16 ára aldur?

2.      Hefur ráðherra áform um að breyta ákvæðum um fermingaraldur og lágmarksaldur til að skrá sig í trúfélög og úr þeim?

 3.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp þess efnis að fella úr gildi eða endurskoða tilskipun um ferminguna frá 25. maí 1759 eða tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum frá              23. mars 1827, sem báðar er enn að finna í lagasafninu, og ef ekki, hvers vegna ekki?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn