Eyjan

Bleikt
0
Fimmtudagur 26.apríl 2018
Eyjan

Sakar Dag og félaga um að dreifa lygum og óhróðri um Eyþór Arnalds á Facebook

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Miðvikudaginn 11. apríl 2018 17:15

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Björn Bjarnason fyrrum ráðherra og þingmaður.

Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra og félaga hans í Samfylkingunni komna í „Trump-stellingar“  gagnvart fjölmiðlum og „öðrum andstæðingum sínum“ í ljósi minnkandi fylgis, með því að dreifa áróðri og persónulegum árásum á Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Facebook:

„Eftir því sem hallar meira undan fæti hjá Degi B. og félögum leggjast þeir lægra í áróðri sínum og persónulegum árásum á Eyþór Arnalds, efsta mann á D-listanum, á Facebook. Fyrir efninu er Árni Tryggvason skráður en Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og fleiri sjá um að dreifa því.“

Björn nefnir dæmi og setur málið í samhengi við vitnaleiðslur Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, sem sakaður er um að misnota samfélagsmiðilinn í pólitískum tilgangi, en hann hefur viðurkennt að hafa ekki haft nægilegt eftirlit með efninu sem menn miðluðu og var notað til að koma pólitísku höggi á andstæðinga:

„Þessi skrif eru á þann veg að í Bandaríkjunum hefðu þau líklega borið á góma á fundum þingmannanna með Zuckerberg með gagnrýni á  þessar lygar og hálfsannleika. Ávirðingarnar á Eyþór t.d. vegna gjaldþrots OZ og um rekstur Becromal eru rangar. Þá er hann sagður hafa verið „einn forsvarsmanna“ búgarðabyggðar í Árborg sem var skipulögð af vinstri meirihluta þar áður en Eyþór flutti þangað. Fullyrt er án rökstuðnings að orkufyrirtæki sem ætlaði að virkja við Hagavatn hafi hagrætt „upplýsingum til að koma virkjuninni í nýtingarflokk“, svo að dæmi séu nefnd.“

Þá biðlar Björn til Facebook um ritskoðun á „óhróðrinum“:

„Guðjón Friðriksson dreifir þessu efni með þeim orðum að hann furði sig á „hvað tekið er á borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna með miklum silkihönskum“. Sagnfræðingurinn vill með öðrum orðum meira af óhróðri um Eyþór á Facebook í von um að þá vænkist hagur Dags B. Skyldi enginn kunna íslensku í ritskoðunardeild Facebook?“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af