Eyjan

Bleikt
0
Fimmtudagur 26.apríl 2018
Eyjan

Líkur á lækkun kosningaaldurs í 16 ár aukast

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Þriðjudaginn 20. mars 2018 10:30

Andrés Ingi Jónsson

Líkurnar á að frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár jukust nokkuð eftir að málið var afgreitt úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til annarrar umræðu. Álitið var samþykkt af meirihluta nefndarinnar, tveimur þingmönnum stjórnarflokkanna og þremur úr stjórnarandstöðu. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, sem ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur studdi vantrauststillögu minnihlutans gegn dómsmálaráðherra og mikil óvissa ríkir um framtíð þeirra innan þingflokksins. Það yrði því eilítið sérstakt ef Andrés kæmi frumvarpinu í gegn, í ljósi stöðu sinnar.

 

Rætt er við Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG í Morgunblaðinu í dag um málið. Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að frumvarpið komist fljótt til annarrar og þriðju umræðu og fái því skjóta afgreiðslu. Því ættu 16 og 17 ára ungmenni að geta kosið strax í næstu sveitastjórnarkosningum þann 26. maí næstkomandi.

 

Óljóst er þó með stuðning þingsins, en að frumvarpinu standa 14 þingmenn úr öllum flokkum. Til dæmis vildi Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tengja lækkun kjörgengis við lögræðisaldurinn, sem einnig er 18 ár. Rök hans voru þau, að ef ungmennum er treyst fyrir ábyrgri afstöðu til kosninga, en ekki til að ráða sér sjálft, væri komin upp ákveðin skekkja.

 

Svo virðist sem tillit hafi verið tekið til þessa sjónarmiðs að vissu leyti, en ekki öllu, því meirihluti Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilaði frá sér sameiginlegu nefndaráliti með breytingartillögu fyrir helgi, en að henni stóðu Helga Vala Helgadóttir Samfylkingunni og formaður nefndarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Jón Þór Ólafsson Pírati, Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn og Þórunn Egilsdóttir Framsóknarflokki.

 

Hún tiltekur að ekki skuli lækka lögræðisaldur í samræmi við kjörgengi, en foreldrar geti þó ekki haft áhrif á ákvarðanir barna sinna þó svo þeir teljist enn forráðamenn þeirra:

 

„Á Íslandi miðast skólaskylda við 16 ára aldur og telur nefndin að með því að lækka kosningaaldur í 16 ár gefist skólum gott tækifæri til að gera kosningaþátttöku sjálfsagða og eðlislæga ungmennum. Meiri hlutinn telur að það sé rétt skref að veita 16 ára börnum rétt til að kjósa og þurfa þau þá að fara að þeim fyrirmælum sem eiga við um kjósendur og kveðið er á um í kosningalögum. Meiri hlutinn tekur fram að í forsjá foreldranna felst ekki réttur foreldra til að taka ákvörðun fyrir börnin um hvað þau eigi að kjósa eða til að aðstoða börn sín á kjörstað í krafti forsjárskyldna. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að kjörgengi ætti fremur að fylgja lögræðisaldri, m.a. vegna þess að fulltrúar í sveitarstjórnum taka ákvarðanir sem varða fjárhag sveitarfé- laga og ekki eðlilegt að ófjárráða einstaklingar komi að slíkum ákvörðunum. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur til breytingar á frumvarpinu þannig að það verði einungis kosningarétturinn sem miðast við 16 ára aldur.“

 

Þá er lögð áhersla á að þeir sem kjósa í fyrsta skipti fái viðeigandi fræðslu um lýðræðislega þátttöku í samráði við umboðsmann barna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af