Eyjan

Bleikt
0
Fimmtudagur 26.apríl 2018
Eyjan

Hreinn hagnaður jókst um 12%

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Föstudaginn 16. mars 2018 21:00

Kristinn H. Gunnarsson

Kristinn H. Gunnarsson ritar:

Enn er í fersku minni leiftursókn útgerðargreifanna að almannahag í byrjun ársins. Talsmenn LÍÚ ráku
upp mikið ramakvein yfir því að veiðigjaldið jókst í samræmi við aukinn hagnað 2015. Var því mjög
haldið fram að greiðslur til ríkisins í formi veiðigjalds og tekjuskatts af hagnaði væru svo yfirgengilegar
orðnar að þær væru skattheimta á sterum. Eðlilega var fyrsta hugsun almennings að vorkenna
eigendum fyrirtækjanna. En svo kom annað í ljós þegar afkoman var skoðuð. Fyrirtækin í sjávarútvegi
voru að græða meira eftir að þau höfðu staðið skil á veiðigjaldinu en ekki minna. Gróðinn var að
hækka úr 10 milljörðum króna upp í 20 milljarða króna. Meiri gróði er ekki minni hagnaður.

Hreinn hagnaður af fiskveiðum hækkar
Hagstofa Íslands hefur loks birt skýrslu sína um afkomu sjávarútvegsins á árinu 2016. Skýrslan
staðfestir áframhaldandi góðæri í greininni. Hreinn hagnaður af fiskveiðum hækkaði úr 31 milljarði
króna upp í 33 milljarða króna. Hvorki meira né minna en 24,2% af tekjum í fiskveiðum stóð eftir sem
hreinn hagnaður þegar búið var að draga frá allan kostnað við reksturinn, svo og afskriftir og
fjármagnskostnað. Hlutfallið var aðeins 20,1% árið áður og hækkunin því heil 4,1% af tekjum.
Afkoman af veiðunum varð betri árið 2016 en ekki verri, þrátt fyrir hækkandi gengi íslensku
krónunnar.

Hreinn hagnaður í heild hækkar
Það kemur svipað í ljós þegar skoðuð er afkoman á árinu 2016 af bæði veiðum og vinnslu, þ.e.
sjávarútveginum í heild. Hreinn hagnaður hækkar frá 2015 um 5,5 milljarða króna og varð nærri 53
milljarðar króna. Hækkunin er 12% af hreinum hagnaði ársins áður, 2015.
Vissulega má sjá að hækkun gengisins fækkar krónunum sem fyrirtæki fá í tekjur fyrir afurðirnar. En
útgjöldin lækka líka og reyndar lækka þau meira og þess vegna vex hreinn hagnaður.

Aflahlutir ekki lægri síðan 2009
Það eru einkum aflahlutir og olíukostnaður sem lækka frá fyrri árum. Útgerðin greiddi 36,4 milljarða
króna í aflahluti á árinu sem er um 5 milljarða króna lækkun frá 2015. Aflahlutirnir hafa ekki verið
lægri síðan á árinu 2009. Með öðrum orðum sjómennirnir verða fyrir launalækkun vegna
gengishækkunar íslensku krónunnar. Þá er olíukostnaðurinn aðeins 9 milljarðar króna og hefur
lækkað gríðarlega frá 2012 þegar hann var um 25 milljarðar króna á verðlagi í dag. Þar af er lækkun
olíukostnaðarins um 4,5 milljarðar króna frá 2015. Olíukostnaður ársins 2016 varð sá lægsti á þessari
öld og ef til lengur. Það er einkum verðlækkun olíunnar erlendis sem skýrir þennan búhnykk.

Fjármagnskostnaður minni en enginn
En það sem kannski er eftirtektarverðast við afkomu sjávarútvegsins á síðustu árum er hvað
fjármagnskostnaðurinn reynist vera lágur. Sterk staða ískensku krónunnar hefur jákvæð áhrif þróun
skulda og kostnaðinn af fjármagninu, vaxtakostnaðinn. Mörg stóru sjávarútvegsfyrirtækin hafa fært
skuldir sínar í erlenda mynt og sækja þannig lægri vexti og þegar viðbætist að gengi íslensku
krónunnar styrkist skreppur fjármagnskostnaðurinn saman. Á árinu 2016 varð fjármagnskostnaðurinn
minna en enginn! Samkvæmt yfirliti Hagstofunnar hafði atvinnugreinin 7 milljarða króna tekjur af
fjármagni nettó. Þetta er annað árið af síðustu fimm sem þetta gerist. Samanlagður
fjármagnskostnaður sjávarútvegsins árin 2012 – 2016 er aðeins um 5,5 milljarðar króna. Það
samsvarar einungis 0,7% af tekjum þessara 5 ára. Kostnaður af skuldum í sjávarútvegi er satt að segja
óverulegur á þessu árabili. Íbúðarkaupendum á Íslandi þætti það mikill happafengur ef svo myndi
atvikast að þeir greiddu aðeins 0,7% af tekjum sínum vegna íbúðarkaupanna. En þeim standa ekki til
boða þessi afburðakjör sem fyrirtækjum í sjávarútvegi býðst. Útgerðin getur valið það besta úr
báðum heimum, fengið lága evruvexti og notað krónuna til þess að lækka rekstrarútgjöld sín svo sem
til launa sjómanna.

Eigið fé hækkar um 41 milljarð króna
En aftur að heildarafkomu sjávarútvegsins, veiða og vinnslu á árinu 2016. Í skýrslu Hagstofunnar
kemur fram að skuldlaust eigið fé fyrirtækjanna í atvinnugreinni jókst úr 221 milljarði króna upp í 262
milljarða króna á árinu 2016. Það var nú ekki verra en það ástandið sem útgerðarauðvaldið grætur
yfir þessa dagana. Eigið fé hækkaði um 41 milljarð króna á einu ári. Það er 18,5% hækkun á eigin fé
eftir að hið skelfilega veiðigjald hefur verið greitt! Það verður að teljast býsna góð ávöxtun.
Það sem enn athyglisverðara er að fyrir 7 árum, eftir bankahrunið, var eigið fé í sjávarútvegi ekkert.
Nú er það 42% af eignum. Á aðeins 7 árum hefur það vaxið upp í 262 milljarða króna.

Gripdeildir
Niðurstaðan er augljós. Það er vitlaust gefið. Fáum kvótagreifum er mikið gefið en almenningi er lítið
gefið nema þá helst langt nef. Sjávarútvegur á auðvitað eins og aðrar atvinnugreinar að búa við
umgjörð sem gefur kost á hagnaði. En þetta er ekki eðlilegt. Þetta eru gripdeildir en ekki hagnaður.
Þetta er ömurlegur vitnisburður um stjórnmál flokka frá hægri til vinstri sem eru gegnsósa af
óeðlilegri sérhagsmunagæslu. Mál er að linni.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af