Eyjan

Upplýsingaóreiða

Egill Helgason
Mánudaginn 12. mars 2018 12:16

Eitt af því sem er sagt varðandi komu bloggarans Vanessu Beeley til Íslands er að það þurfi að „dýpka umræðuna“ og „opna umræðuna“. Þetta er reyndar frasi sem maður heyrir oft, það er líka talað um að við verðum að þora að „taka umræðuna“.

Reyndur blaðamaður sendi mér þessa orðsendingu:

Þetta er samt mjög áhugaverð uppákoma í víðara samhengi. Vanessa þessi virðist, meðvitað eða ómeðvitað, hluti af herferð Rússa sem miðar að því að gera skynsamt fólk óöruggt. Upplýsingaóreiða heitir þetta, að blanda öllu saman og rugla fólk svo í ríminu að það veit fyrir rest ekki hvað snýr upp og hvað niður. Gefst þ.a.l. upp, beitir sér ekki fyrir eða gegn neinu og missir trúna á stofnanir sem það áður treysti. Ekki vegna þess að þær stofnanir hafi brugðist heldur vegna þess að ófrægingin virkar svo vel. (Valdaöfl hvar sem er geta því haldið áfram hverju sem þeim hentar).

Í þessari herferð er látið eins og allar upplýsingar séu í raun skakkar og afbakaðar, það sé ekki að marka neinn. Ekki er nefnt að mikið af þeim koma frá fólki sem hefur flúið átakasvæðin – eitthvað af því fólki má jafnvel finna á Íslandi. Upplýsingar koma líka frá alþjóðlegum hjálparstofnunum, samtökum eins og Læknum án landamæra, og svo frá Sameinuðu þjóðunum. Rannsóknarnefnd SÞ um Sýrland birtir reglulega skýrslur. En það hentar málstaðnum að láta eins og ekkert af þessu sé til – enda er markmiðið fyrst og fremst að rugla.

Hér má svo benda á lýsingu finnskrar fréttakonu Jessikka Aro sem lenti í því að rússnesk nettröll reyndu að hafa af henni æruna, starfið og lífsviðurværið. Hún lenti í raun í algjörri nauðvörn. Þetta eru allrosalegar aðfarir – en víða á Norðurlöndunum eru menn farnir að gera sér grein fyrir þessu vandamáli.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af