Eyjan

Sameiginlegur listi til höfuðs Sjöllum í Garðabæ

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Mánudaginn 12. mars 2018 17:30

Mynd-gardabaer.is

Björt framtíð, Samfylking, Viðreisn og Vinstri græn munu bjóða fram sameiginlegan lista í Garðabæ í næstkomandi sveitastjórnarkosningum. Þetta kemur fram á vef RÚV. Viðræður hafa staðið yfir í um mánuð, en Björt framtíð, Samfylking og Listi fólksins hafa skipað minnihlutann í Garðabær frá 2014. María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi Lista fólksins, verður oddviti Miðflokksins í næstu kosningum. Hún sagði við Eyjuna að skoðað hefði verið að fara fram með sameiginlegu framboði, en á endanum hefði verið ákveðið að fara fram undir eigin merkjum.

Sara Dögg Svanhildardóttir tekur sæti á listanum fyrir Viðreisn, en ekki er búið að raða endanlega á lista Viðreisnar. Það skýrist betur í þessari viku. Að sögn Söru Daggar eru fulltrúar allra framboða sammála um að sameinuð séu þau sterkari en í sitthvoru lagi, segir á RÚV.

Aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekki riðið feitum hesti frá kosningum í Garðabæ um árafjöld. Framsókn náði ekki inn manni 2014, Listi fólksins og Samfylking fengu einn mann,  og Björt framtíð tvo. Vinstri grænir buðu ekki fram í Garðabæ 2014 og Viðreisn var ekki stofnuð.

 

Bæjarlistinn svokallaði bauð fram árið 2006 og hlaut þrjá menn kjörna gegn fjórum frá Sjálfstæðisflokki. Þá fékk Garðabæjarlistinn einn mann árið 2002, Framsókn tvo og Sjálfstæðisflokkurinn fjóra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af