Eyjan

Píratar setja niður akkeri í Mosfellsbæ

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 12. mars 2018 13:47

Nýja stjórnin

Nýtt aðildarfélaga Pírata í Mosfellsbæ var stofnað á Bókasafni Mosfellsbæjar síðastliðinn laugardag, samkvæmt tilkynningu. Fundurinn var vel sóttur en milli 25 – 30 manns tóku þátt. Kosin var þriggja manna stjórn félagsins og lög hins nýstofnaða aðildarfélags samþykkt. Stjórnarmenn voru kjörin þau Sigrún Guðmundsdóttir, Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson. Boðað hefur verið til fyrsta stjórnarfundar í dag, mánudag en fyrsta verkefni stjórnar er að skipta með sér verkum og boða til almenns félagsfundar sem tekur afstöðu til framboðsmála Pírata í bæjarfélaginu.

„Stofnun Pírata í Mosfellsbæ er enn eitt dæmið um þá miklu siglingu sem Píratar eru á. Við getum verið stolt af hreyfingunni okkar. Píratar eru komin til að vera. Hér á ég rætur að rekja. Hér búa foreldrar mínir og hingað kem ég oft eftir langa þingdaga og nýt þeirrar lukku að eyða tíma í fangi fjölskyldunnar í fallegu umhverfi Mosfellsbæjar. Hér líður mér eins og ég sé komin í friðsæla sveitina  umlukin Reykjarlundarskóginum og í nágrenni Álafoss og Varmár. Hér er gott að slaka á og gleyma erli dagsins.“

sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, við fundargesti, en hún er uppalin í Mosfellsbæ þar sem foreldrar hennar búa.

 

Fulltrúar Íbúahreyfingarinnar hafa þegar hafið samtal við Pírata um samstarf í komandi kosningabaráttu. Hjördís Bjartmars Arnardóttir, formaður Íbúahreyfingarinnar, sagðist á fundinum spennt fyrir nýju blóði í stjórnmál Mosfellsbæjar.

Michaela Krausová, starfskona Pírata í Tékklandi, sótti um leið fundinn en hún er í heimsókn hér á landi til að kynna sér starfsemi Pírata á Íslandi. Tékkneskir Píratar unnu stórsigur í nýliðnum þingkosningum Tékklands. Flokkurinn er nú með 22 þingmenn af 200 fulltrúum í neðri deild þingsins sem og einn fulltrúa í Senátinu. Píratar á Íslandi eru ásamt tékkneska flokknum meðlimir i Evrópskum Pírötum, European Pirate Party – PPEU sem samanstendur af Píratahreyfingum í 20 löndum. Formaður Evrópskra Pírata er Oktavía Hrund Jónsdóttir, varaþingkona Pírata á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af