Eyjan

Björn um stefnuræðu Þorgerðar: „Misheppnuð réttlæting á pólitísku feilspori“

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 12. mars 2018 14:04

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, baunar á Þorgerði Katrínu, Viðreisn og Kjarnann í nýjasta pistli sínum. Viðreisn hélt landsfund sinn um liðna helgi, hvar þau Þorgerður og Þorsteinn Víglundsson voru kosin til forystu í rússneskri kosningu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, en Viðreisn hefur ekki viljað gefa upp atkvæðafjöldann á bak við prósentuhlutfallið.

Björn dregur fram tvískinnung Viðreisnar, að gefa ekki upp atkvæðafjöldann, með því að vitna í grunnstefnu flokksins:

 

„Opin, upplýst og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Greiður aðgangur að upplýsingum er forsenda þekkingar.“ Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (12. mars) segir að Þorgerður Katrín hafi fengið 95,3% í formannskjöri og Þorsteinn Víglundsson alþingismaður 98,5% í varaformannskjöri á landsþinginu. Ásdís Rafnar, formaður kjörstjórnar, sagði við blaðamann „að ákveðið hefði verið að gefa ekki upp hversu mörg atkvæði voru greidd á fundinum eða hversu margir sóttu hann“. Þegar Viðreisn ályktar um greiðan aðgang að upplýsingum á það augljóslega við aðra en flokkinn sjálfan.“

Björn vitnar einnig í orð Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem skrifaði á Facebooksíðu sína, að honum þætti framkoma Þorgerðar undanfarið „vera fyrst og fremst henni til minnkunar og um leið köld skilaboð til þeirra fjölmörgu sem studdu hana til starfa og áhrifa á vettvangi flokksins.“

Þá hnýtir Björn einnig í ritstjóra vefritsins Kjarnans, Þórð Snæ Júlíusson og segir hann hafa tekið það að sér að skýra ræðu Þorgerðar fyrir lesendum, til að þeir áttuðu sig á því hvert hún væri að fara með skáldlegum líkingum sínum.

„Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarnans, sem styður vinstrisinnaðan boðskap gegn Sjálfstæðisflokknum, fagnar setningarrræðu Þorgerðar Katrínar í fréttaskýringu á vefsíðunni og segir hana hafa skotið „föstum skotum á Morgunblaðið og stærstu eigendur þess“. Tekur ritstjórinn sér síðan fyrir hendur að skýra orð flokksformannsins til að auðvelda lesendum Kjarnans að átta sig því hvert Þorgerður Katrín var að fara með skáldlegum líkingum eins og þeim að „álfar úr hól grárrar forneskju“, andvígir aðild að ESB, „minni helst á staka steina út í einhverjum hádegismóanum“.

Þá fann Þorgerður Katrín að uppbyggingu á Korputorgi þar sem verslunarrekstur hefur átt undir högg að sækja og túlkar Þórður Snæ það sem árás á eigendur Morgunblaðsins. Loks vitnar ritstjóri Kjarnans með velþóknun í þau orð Þorgerðar Katrínar að sjálfstæðismenn megi ekki komast til valda í Reykjavík „á grunni orðræðu oddvitans [Eyþórs Arnalds] sem endurspeglar gömlu valdablokkirnar í Sjálfstæðisflokknum. Og alltaf þegar vonir eru bundnar við að gamalkunnar risaeðlur séu að slaka á klónni, birtast þær skyndilega eins og grameðlurnar í Júragarðinum.“  Um þessi orð segir Þórður Snær: „Þær gömlu valdablokkir sem hún vísar til eru þeir hópar innan Sjálfstæðisflokksins sem fylgja Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni flokksins og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að málum.“

Að lokum segir Björn um ræðu Þorgerðar:

„Ekki skal dregið í efa Þorgerður Katrín líti á ræðu sína sem framlag til „opinnar, upplýstrar og málefnalegrar umræðu“ þótt ritstjóri Kjarnans telji sig þurfa að bæta um betur með skýringum sínum. Fyrir þá sem þekkja til sögunnar sem Jón Gunnarsson nefndi á FB-síðu sinni er ræðan fyrst og síðast misheppnuð réttlæting á pólitísku feilspori sem átti að vera inn í Evrópusambandið en endaði úti í móa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af