Eyjan

Þorgerður og Þorsteinn fengu örugga kosningu

Trausti Salvar Kristjánsson
Sunnudaginn 11. mars 2018 16:13

Forystufólk Viðreisnar, þau Þorgerður og Þorsteinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin formaður Viðreisnar á landsþingi flokksins sem fram fer um helgina. Hlaut hún 95.3% greiddra atkvæða. Þorsteinn Víglundsson var kjörinn varaformaður með 98.5% atkvæða.

 

 

„Takk fyrir þennan eindregna stuðning. Hann er mér ákveðið veganesti sem brýnir mig áfram í rugga bátnum með ykkur. Hlakka til að vinna með ykkur, fyrir okkur öll til að gera samfélagið okkar betra. Við getum gert betur, við höfum leiðirnar og lausnirnar. Framundan eru verkefni sem bíða okkar. Við förum héðan vel nestuð. Ný forysta með sterkt umboð mun skila góðum árangri. Áfram Viðreisn!“

sagði Þorgerður í þakkaræðu sinni eftir kjörið.

Auk formanns og varaformanns var í dag kosin ný stjórn Viðreisnar:
Aðalmenn: Benedikt Jóhannesson, Hildur Bettý Kristjánsdóttir, Karl Pétur Jónsson, Sara Dögg Svanhildardóttir, Sveinbjörn Finnsson

Varamenn: Friðrik Sigurðsson, Ingunn Guðmundsdóttir

STJÓRNMÁLAÁLYKTUN
Landsþing Viðreisnar 2018
Íslenskt samfélag stendur á krossgötum. Eftir hagfellda þróun efnahagsmála eru kunnugleg
viðvörunarljós tekin að loga á ný. Ráðast þarf í nauðsynlegar og löngu tímabærar umbætur á
peningastefnu í þágu heimila og fyrirtækja. Óstöðug smámynt er rót vandans. Með
stjórnarþátttöku sinni sýndi Viðreisn að hægt er að fara í metnaðarfulla uppbyggingu á mörgum
sviðum samfélagsins samtímis því að ríkisfjármálum er stýrt af ábyrgð. Afar mikilvægt er að
frjálslynd rödd Viðreisnar heyrist áfram í samfélaginu.
Viðreisn svaraði kalli #metoo byltingarinnar á landsþingi og setti sér skýrar reglur um viðbrögð
við óásættanlegri hegðun á borð við kynbundna mismunun og áreitni. Þá samþykkti Viðreisn
metnaðarfulla stefnu í fjölmörgum málaflokkum.
● Bilið brúað: Fæðingarorlof skal lengt í 12 mánuði og fjölbreytt dagvistun verði í boði frá
12 mánaða aldri.
● Aukin verði heimild til nýtingar á séreignarsparnaði til kaupa á húsnæði.
● Viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu verði lokið.
● Gengisstöðugleiki og lægri vextir tryggðir með upptöku evru.
● Rýmkaðar verði heimildir til skattfrádráttar nýsköpunarfyrirtækja.
● Afnema á samkeppnishindrarnir á innlendum mörkuðum.
JAFNVÆGI
Stöðugleiki verðlags og vaxtastig þarf að vera svipað og í nágrannalöndum, sem gerist ekki
nema með því að festa gengi krónunnar með myntráði og upptöku evru í fyllingu tímans. Að
óbreyttu geta tækni-, sprota- og nýsköpunarfyrirtæki ekki vaxið eðlilega hér á landi. Jafnvægi í
gengismálum og lægri vextir eru sérstaklega mikilvæg fyrir landsbyggðina þar sem stór hluti
fyrirtækja byggir á útflutningi.
Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi til framtíðar.
Góðar samgöngur og örugg fjarskipti um land allt eru besta byggðastefnan. Tryggja þarf
aðgengi allra landsmanna að öruggri heilbrigðisþjónustu og fjölbreytilegri menntun.
FRJÁLSLYNDI
Frelsi einstaklingsins og mannréttindi eru grundvöllur lýðræðislegs samfélags. Tryggja þarf jöfn
réttindi allra landsmanna óháð uppruna, efnahag, kyni, kynhneigð, kynvitund, kyngervi, trú,
fötlun, búsetu eða öðrum aðstæðum fólks.
Frjáls viðskipti, innanlands sem utan, eru undirstaða efnahagslegrar velferðar. Afnema á
samkeppnishindranir á innlendum mörkuðum svo sem í landbúnaði, fjölmiðlun og smásölu
áfengis. Einfalda þarf skattkerfið þannig að jafnræði sé milli atvinnugreina. Bæta þarf
rekstrarskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og rýmka heimildir til skattfrádráttar.

Íslenskt samfélag nýtur góðs af frumkvæði fjölmargra fagaðila, jafnt hjá opinberum aðilum sem
einkaaðilum. Þessi fjölbreytti hópur gegnir mikilvægu hlutverki, ekki síst í mennta- og
heilbrigðismálum. Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur skorið upp herör gegn
einkaframtaki. Viðreisn telur brýnt að frelsi til athafna sé sterkt á þessum sviðum sem öðrum.
Reynslan sýnir að slíkt frelsi er grunnur nýsköpunar sem framþróun íslensks samfélags á mikið
undir.
Viðreisn styður fjölbreytt rekstrarform menntastofnana sem leið til að fjölga valkostum í námi. Þá
verði einstökum stofnunum veitt aukið frelsi til að finna vænlegustu leið að markmiðum um
hæfni. Viðreisn vill að nýttir verði kostir fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu til þess að
ná markmiðum um aukna afkastagetu og bætta þjónustu auk þess að laða enn frekar hæft fólk
að til mikilvægra starfa.
Frjáls, óháð og öflug fjölmiðlun er nauðsynleg hverju lýðræðissamfélagi. Styrkja þarf
samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og endurskoða stöðu RÚV á samkeppnismarkaði.
Mikilvæg skref til að tryggja jöfn réttindi allra landsmanna er að jafna atkvæðisrétt. Þá er
tímabært að hefja aðskilnað ríkis og kirkju svo tryggja megi raunverulegt trúfrelsi.
ALÞJÓÐLEG SAMVINNA
Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja á sviðum menningar, efnahags og
viðskipta. Ísland verði virkari þátttakandi í samstarfi Evrópska efnahagssvæðisins. Aðild að
Evrópusambandinu og upptaka evru stuðla að aukinni hagsæld á Íslandi og skal því ljúka
samningaviðræðum um fulla aðild og aðildarsamningurinn borinn undir þjóðina.
Ísland á að taka virkan þátt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi,
viðskipti og stuðla að friði. Ísland skal beita sér gegn viðskiptahindrunum og verndartollum í
alþjóðaviðskiptum. Utanríkisþjónustan skal í öllu alþjóðlegu samstarfi styðja við jafnréttismál.
Ísland á að sýna metnað í alþjóðlegu hjálparstarfi, þróunarhjálp og móttöku flóttamanna.
RÉTTLÁTT SAMFÉLAG
Réttlátt og sanngjarnt samfélag, jafnrétti og félagslegur hreyfanleiki stuðla að velmegun og
tryggja einstaklingnum frelsi til að nýta hæfileika sína og krafta til fulls. Jöfn staða kynja er
grundvöllur réttláts samfélags. Styrkja skal velferðarkerfið og endurskoða skattkerfið með aukinn
tekjujöfnuð að leiðarljósi.
Staða fjölskyldna verði samanburðarhæf við Norðurlöndin, meðal annars í húsnæðismálum og
menntamálum. Fæðingarorlof skal vera 365 dagar og fjölbreytt dagvistunarúrræði skulu standa
börnum til boða frá 12 mánaða aldri.
Brýnt er að stuðla að auknu framboði húsnæðis og stöðugleika á fasteignamarkaði. Útvíkka skal
leið við nýtingu séreignarsparnaði við kaup á húsnæði. Þjóðarátak þarf í samvinnu við aðila
vinnumarkaðarins um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo þau megi vera sambærileg við
aðrar stéttir með sambærilega menntun.
Náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar. Þær ber að nýta skynsamlega og greiða
markaðsverð fyrir. Ísland sýni dug og gott fordæmi í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Vonbrigðum veldur að núverandi ríkisstjórn vék frá metnaðarfullri stefnu Viðreisnar í
kolefnisgjöldum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af