Eyjan

Sakar fréttamann RÚV um þöggun og fordóma

Trausti Salvar Kristjánsson
Laugardaginn 10. mars 2018 23:47

Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra VG.

Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra VG, vandar ónefndum fréttamanni RÚV ekki kveðjurnar í pistli á heimasíðu sinni. Fjallar hann þar um samskipti sín við fréttamanninn í tengslum við fyrirlestur bresku rannsóknarblaðakonunar Vanessu Beeley, en Ögmundur tók þátt í kyyningarstarfi fyrir fundinn með því að senda tilkynningar á nokkra fréttamenn RÚV. Fundurinn fór fram fyrir fullum sal Safnhússins en erindið var fréttaflutningur af Sýrlandsstríðinu.

 

Einn fréttamaður sjónvarpsins, sem ekki er nefndur, tók þó ekki vel í tilkynninguna, heldur svaraði:

„Ég nenni ekki að hlusta á samsæriskenningar frá fólki sem dreifir rugli og rússneskum lygum eins og þessi kona gerir. Hún er eiginlega bara rússneskt nettrōll. Hefurðu skoðað feril hennar og hverju hún dreifir? Rugl útí eitt!“

Ögmundur segir sjálfur að blaðakonan sé umdeild. Hann segir hinsvegar viðbrögð fréttamanns RÚV ósæmandi og ótraustvekjandi:

„Þessi viðbrögð fréttamanns sem leyfir sér að svara á þennan veg fyrir hönd Ríkisútvarpsins eru ekki traustvekjandi og ekki sæmandi en hins vegar okkur áminning um við hvað er að etja: Fordóma, þekkingarleysi og þöggun.“

 

 

Pistill Ögmundar:

 

Breska rannsóknarblaðakonan Vanessa Beeley talaði í dag fyrir troðfullum sal Safnahússins um fréttaflutning af Sýrlandsstríðinu. Hún er mjög gagnrýnin á hlutdeild stóveldanna, einkum Bandaríkjanna og annarra NATÓ ríkja svo og Sádí-Arabíu og Íslraels og bandalagsríkja þeirra í Mið austurlöndum, í þessu grimmilega stríði.

Þegar upp sé staðið megi rekja þessi afskipti til olíu- og annarra efnahagslegra og síðan einnig hernaðarelegra hagsmuna þessara ríkja í þessum heimshluta. Það skýrði ákefðina í valdaskipti („regime change“) í Sýrlandi.

Allt að tvö hundruð manns hlýddu á erindi bresku blaðakonunnar og komust færri að en vildu.

Vanessa nýtur virðingar víða um heim en því fer fjarri að hún sé óumdeild. Sumir gagnrýna hana málefnalega en þau eru einnig til sem telja sig ekki þurfa að hlusta á rök hennar og upplýsingar heldur afgreiða hana eins og þeim þóknast best sem vilja forðast gagnrýna umræðu.

Í kynningu á fundinum var send út fréttatilkyning til allra fjölmiðla, nokkrum fréttamönnum skrifað ég beint, þar á meðal nokkrum fréttamönnum á RÚV. Ekki fékk ég svar en þegar einn skipuleggjenda skrifaði einum af fréttamönnum Sjónvarps til viðbótar, stóð ekki á svari sem hann sendi frá sér nær samstundis: „Ég nenni ekki að hlusta á samsæriskenningar frá fólki sem dreifir rugli og rússneskum lygum eins og þessi kona gerir. Hún er eiginlega bara rússneskt nettrōll. Hefurðu skoðað feril hennar og hverju hún dreifir? Rugl útí eitt!

Vanessu Beeley var greint frá þessum viðbrögðum Ríkisútvarpsins og þótti henni að sjálfsögðu miður að heyra. En þegar ummælin voru lesin upp á fundinum svaraði salurinn með þéttu lófataki Vanessu til stuðnings og heiðurs.

Þessi viðbrögð fréttamanns sem leyfir sér að svara á þennan veg fyrir hönd Ríkisútvarpsins eru ekki traustvekjandi og ekki sæmandi en hins vegar okkur áminning um við hvað er að etja: Fordóma, þekkingarleysi og þöggun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af