Eyjan

Dagur svarar Staksteinum

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 14. febrúar 2018 14:36

Eyþór og Dagur Samsett mynd/DV

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, sér sig knúinn til að varpa ljósi á þá umræðu sem hefur skapast vegna uppákomunar í fyrradag, er hann þurfti að biðja borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, að víkja af fundi sem borgarstjórn hafði boðið þingmönnum Reykjavíkur að sitja.

Staksteinar Morgunblaðsins gagnrýndu framkomu Dags og sögðu borgarstjórann farinn að ókyrrast og teldi stöðu sína veika. Ekki er loku fyrir það skotið að Davíð Oddson hafi haldið á penna.

Þessu svarar Dagur á Facebooksíðu sinni í dag:

„Að gefnu tilefni vil ég halda nokkrum atriðum til haga varðandi sameiginlegan fund þingmanna og borgarfulltrúa í Höfða sem haldinn var síðast liðinn mánudag. Fundinn boðaði ég í kjördæmaviku skv. hefð, að höfðu samráði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Í fundarboði kom skýrt fram að um hefðbundinn fund þingmanna Reykjavíkur og borgarfulltrúa í kjördæmaviku væri að ræða. Mér kom því á óvart að Eyþór Arnalds verðandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn skyldi koma til fundarins. Ég heilsaði honum í andyri hússins og sagði honum hvernig í málinu lagi, fundurinn væri fyrir borgarstjórn og þingmenn en frambjóðendur hefðu ekki verið boðaðir. Ekkert fór á milli mála í þessum samskiptum.“

Samkvæmt þessu virðist sem að Eyþór hafi annaðhvort ekki tekið mark á orðum Dags, eða að hann hafi verið eitthvað utangátta og misskilið borgarstjórann, því Eyþór gerði sig líklegan til að setjast við fundarborðið, að sögn borgarstjóra:

„Þess var beðið í nokkrar mínútur að allir fundarmenn skiluðu sér og þegar forsætisráðherra var komin í hús bauð ég fundargestum að setjast við langborð. Ég sat fyrir miðju borðsins öðrum meginn með Halldór Halldórsson oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn við hlið mér, en Guðlaug Þór utanríkisráðherra á móti mér. Þá brá svo við Eyþór gengur í salinn og býst til að setjast í auða sætið við hlið Guðlaugs, sem ætlað hafði verið fyrir forsætisráðherra. Við það gerði ég athugasemd, ítrekaði hvers eðlis fundurinn væri, hverjum hefði verið til hans boðið og að ég væri viss um að Vigdís Hauksdóttir hefði líka verið til í að sitja fundinn en hann hefði ekki verið ætlaður frambjóðendum. Ef áhugi væri á slíkum fundi þyrfti að boða hann sérstaklega. Eyþór vék við svo búið af fundinum, forsætisráðherra tók sæti sitt en utanríkisráðherra upplýsti að hann hefði boðið Eyþóri. Voru ekki höfð uppi mikið fleiri orð um þetta atvik þótt sérstakt hafi verið.“

Þá segir Dagur að Morgunblaðið hafi afbakað atburðarrásina, sem komi ekki á óvart:

„Morgunblaðið kýs í dag að afbaka þetta og gerir tilraun til að leggja út á versta veg og kemur það ekki á óvart. Verður blaðið og ritstjórn þess að eiga það við sig og sína lund. Af Höfðafundinum er hins vegar það að segja að það var óvenju létt yfir honum og umræður málefnalegar. Bæði þingmenn og borgarfulltrúar voru sammála um að hann hefði verið hinn gagnlegasti og ráðgera frekari fundi um einstaka málaflokka á næstu vikum.“

Hið fornkveðna máltæki, „Sá á fund sem finnur“ á því ekki við í þessu tilviki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af