Eyjan

Björn Leví leiðréttir fullyrðingar Ásmundar um mætingu í þinginu

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 14. febrúar 2018 22:00

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, leiðréttir fullyrðingu Ásmundar Friðrikssonar í Kastljósinu, um að hann væri  í öðru til þriðja sæti yfir bestu mætinguna. Birtir Björn nokkuð ítarlega tölfræðigreiningu yfir mætingu þingmanna á Facebook síðu sinni:

„Hæ Ásmundur, ég tók eftir því að þú sagðir ýmislegt mjög áhugavert í þessu Kastljós viðtali sem þú varst í. Þar á meðal var einhver athugasemd um mætingu og að þú værir stoltur af því að vera í 2 – 3. sæti í mætingu.

Nú vill svo heppilega til að ég hef fylgst dálítið með þessari nefndarmætingu og get upplýst þig að á
143. þingi þá varstu í 38. sæti með 79% mætingu – misstir af 21 nefndarfundi þar sem þú varst aðalmaður.
Á 144. þingi þá varstu í 24. sæti með 88% mætingu – misstir af 26 nefndarfundum þar sem þú varst aðalmaður.
á 145. þingi þá varstu í 25. sæti með 83% mætingu – misstir af 36 nefndarfundum þar sem þú varst aðalmaður.
Á 146. þingi þá varstu í 30. sæti með 90% mætingu – misstir af 7 nefndarfundum þar sem þú varst aðalmaður.“

 

Björn útskýrir einnig hvernig mætingar eru metnar:

 

Nú virkar það svo að sumir mæta í fleiri nefndir en þeir eru aðalmenn í, mæta semsagt á fleiri fundi en þeim er ætlað. Þess vegna er hægt að ná meira en 100% mætingu og þannig voru Haraldur Einarsson, Sigríður Á Andersen, Brynhildur Pétursdóttir og Þórunn Egilsdóttir með bestu mætinguna á 143. – 146. þingi.

Þannig að nei, þú varst ekki í 2. – 3. sæti. Þú varst langt frá því þannig að ef þú varst stoltur af þeim áfanga, hvað finnst þér um réttu tölurnar?

(áhugasamir geta keyrt forritið sem taldi þetta sjálfir til þess að votta að rétt sé að málum staðið: https://github.com/bjornle…/5thpower/…/master/nefndarmaeting)

Aðferðafræðin er svona.
1. Tel alla nefndarfundi sem þingmaður mætir á (ekki bara þá nefndarfundi sem þingmaður er aðalmaður í)
2. Tel alla nefndarfundi sem þingmaður er aðalmaður í
3. Tel alla nefndarfundi sem þingmaður er aðalmaður í en mætir ekki
4. Reikna 1./2. til þess að fá mætingarhlutfall.

Ég er búinn að fara ansi vel yfir þessa aðferðafræði og tel hana vera rétta leið til þess að skoða mætingu þingmanna í nefndir vegna þess að það verður líka að taka tillit til nefndarfunda sem þingmenn mæta á sem áheyrnarfulltrúar. Deilingartalan verður að vera allir nefndarfundir sem þingmaður er aðalmaður í vegna þess að þar er skyldumætingin en ef þingmaður þarf til dæmis að mæta í aðra nefnd á sama tíma þá, þó viðkomandi fái skróp í aðalnefndinni, þá telur mætingin í hinni nefndinni í mætingarhlutfalli.

 

Í lok færslu sinnar baunar Björn á Ásmund vegna ummæla hans um 101 rottur:

„.. en hvað veit ég. Ég er bara einhver höfuðborgarrotta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af