Eyjan

Steingrímur boðar breytt vinnubrögð vegna bíltúra

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Þriðjudaginn 13. febrúar 2018 21:42
Steingrímur J. Sigfússon, Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Svo virðist sem að bíltúrarnir hjá Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og greiðslur til hans frá Alþingi upp á 4,6 milljónir vegna ökudugnaðar, hafi undið upp á sig. Í dag barst tilkynning frá Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, um að Alþingi hyggist auka upplýsingagjöf  um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna og birta þær á vef Alþingis. Sú vinna hafi reyndar byrjað fyrir einhverjum mánuðum síðan.

Þar segir hinsvegar einnig, að það sé þingmönnum í sjálfsvald sett hvaða upplýsingar þeir setja fram um sína hagi. Vonandi sjá flestir hag sinn í því að útrýma tortryggni í þeirra garð og skrá samviskusamlega allar nauðsynlegar upplýsingar.

Brynhildur Pétursdóttir, fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði við RÚV að auðvelt væri að misnota kerfið sem viðhaft væri varðandi akstursbók þingmanna.

Í  svari við fyrirspurn Eyjunnar til Alþingis um hvernig eftirliti með akstursbókum alþingismanna væri háttað, kom fram að starfsmaður Alþingis færi yfir allar upplýsingar í akstursbókum þingmanna. Greiðslur séu ekki inntar af hendi nema upplýsingar séu rétt skráðar samkvæmt fyrirmælum.

Forseti Alþingis telur þetta greinilega ekki nóg, enda hefur núverandi kerfi fengið á sig mikla gagnrýni, ekki aðeins fyrir upphæðirnar sem um ræðir, heldur fyrirkomulagið sjálft.

Tilkynninguna má lesa hér að neðan:

 Tilkynning frá forseta Alþingis,

            Steingrími J. Sigfússyni,

            til fjölmiðla.

            Alþingismönnum hafa síðustu daga borist margvíslegar fyrirspurnir um greiðslur tengdar starfi þeirra á Alþingi. Af því tilefni vill forseti Alþingis koma því á framfæri að til skoðunar hefur verið á undanförnum mánuðum, og rætt m.a. í forsætisnefnd Alþingis, að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna þannig að aðgangur að þeim verði öllum auðveldur og þær birtar á vef þingsins. Fyrir hafa legið í drögum reglur um fyrirkomulagið og hefur í þeim efnum verið horft til þess hvernig önnur þing haga upplýsingum um þessi mál. Markmiðið er að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki. – Þingmönnum er að auðvitað í sjálfsvald sett hvaða upplýsingum þeir koma sjálfir á framfæri um sín kjör, eins og verið hefur.

            Alþingi hefur með markvissum hætti reynt að skapa góða umgjörð störf og kjör þingmanna, þar á meðal með siðareglum og reglum um hagsmunaskráningu þingmanna sem eru á vef þingsins. Sú aukna upplýsingagjöf sem í vændum er mun bætast þar við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af