Eyjan

Píratar stofna femínistafélag – Ekki allir á eitt sáttir

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 12. febrúar 2018 10:56

Helgi Hrafn Gunnarsson

Í bígerð er stofnun femínistafélags innan Pírata, en stofnfundur félagsins verður að öllum líkindum um næstu helgi. Skiptar skoðanir eru um stofnun slíks femínistafélags á Pírataspjallinu á Facebook og ekki allir á eitt sáttir. Sumir spyrja hvort þörf sé á slíku, hvort allir Píratar séu ekki jafnréttissinnar hvort sem er. Aðrir spyrja hvort þörf sé á sérstökum skilgreiningum og hvort ekki mætti þá stofna deild innan Pírata sem héti Kristnir Píratar. Aðrir tala um að verið sé að þjónka við ofstæki og pólitískri rétthugsun.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er einn af stofnendum félagsins. Hann segir slíkt félag vel rúmast innan Pírata:

„Að mínu mati er full þörf á þessu. Það eru margir femínistar í Pírötum og mikið af Pírötum sem eru ekki femínistar. Þarna er kominn vettvangur fyrir femínista til að ræða málefnið sjálft, sem er jafnrétti í víðum skilningi, í stað þess að festast í eilífu rifrildi um hvort einhver sé femínisti eða ekki,“

segir Helgi. Hann óttast ekki að þetta leiði til einhverskonar klofnings eða reiði innan Pírata:

„Klofnings, nei. Þetta er bara félagsskapur fólks sem kallar sig Pírata og femínista og vilja spjalla saman. Það einhver pirringur í sumum á Pírataspjallinu, en með fullri virðingu fyrir því, þá er það einfaldlega að lesa eitthvað skringilega í spilin. Það heyrast þær tortryggnisraddir að með þessu sé mögulega verið að vinna gegn grunnstefnu Pírata. Það er bara ekki rétt, það segir einfaldlega í lögum Pírata að aðildarfélög verði að vinna í samræmi við grunnstefnu Pírata, það er ekkert valkvæmt. Ég þreyttur á að þurfa að sitja undir slíku, því við sem stöndum að þessu femínistafélagi höfum ekkert sagt eða gert sem brýtur í bága við grunnstefnu Pírata.“

Helgi viðurkennir sjálfur að hafa ekki alltaf verið femínisti:

„Ég var anti-femínisti fyrir löngu síðan. Ég hugsaði síðan málið, ræddi um það og kynnti mér það. Ég er femínisti, sem er bein afleiðing þess að aðhyllast grunnstefnu Pírata, sem er sjálfsákvörðunarréttur, frelsi og dreifing valds. Fólk sem hættir að skipta um skoðun er fólk sem hættir að læra.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af