Eyjan

Verðkönnun ASÍ: Gríðarlegur verðmunur á hreinlætisvörum

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 9. febrúar 2018 16:30

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á matvöru og öðrum nauðsynjavörum en könnunin sýnir að
gríðarlegur verðmunur er á hreinlætisvörum á milli verslana eða frá 69% upp í 132%. Mestur er
verðmunurinn á dömubindum eða 132% og eins er mikill verðmunur á uppþvottavélatöflum eða
131%. Iceland var oftast með hæsta verðið í könnuninni eða í 35 af 82 tilvikum (43% tilfella) á meðan
Bónus var oftast með það lægsta eða í 41 af 82 tilvikum (50% tilfella). Könnunin var framkvæmd í 9
stærstu og dreifðustu verslunum og verslunarkeðjum landsins þann 7. febrúar. Meðalverðmunurinn
á öllum vörunum í könnuninni var 52% en mikill verðmunur var á vinsælum vörum eins og ferskum
kjúklingi, fiski, Smjörva, Cheeriosi, skyri, hveiti og allskonar grænmeti og ávöxtum.

Munur á hreinlætisvörum 66-132%

Mesti verðmunurinn var á hreinlætisvörum eða allt frá 66% og upp í 132%. Meðalverðmunurinn á
hreinlætisvörum var 96% en þar bar hæst að 132% verðmunur er á dömubindum milli verslana.
Verðmunurinn á OB túrtöppum er 92% milli verslana. Costco er með ódýrustu Always Ultra normal
dömubindin en þar er stykkjaverðið á 12 kr. á meðan stykkið er á 28 kr. í Víði. Þetta sýnir að
heimsókn frá Rósu frænku getur kostað kvenþjóðina skildinginn sinn ef ekki er að gáð. Þá var mikill
munur á Finish Powerball uppþvottavélatöflum eða 131% en taflan var ódýrust í Hagkaupum á 13 kr.
en dýrust á 31 kr. í Víði. Þá getur klósettferðin verið afar mis dýr hjá landanum en 88% verðmunur
var á Fis klósettpappír frá Papco milli verslana, ódýrust var rúllan í Bónus á 35 kr. stykkið en dýrust í
Víði á 65 kr. Verðmunur á þvottaefni og þvottalegi var einnig mikill eða 69% og 66%. Báðar vörurnar
voru ódýrastar í Bónus en dýrastar í Iceland.

 

52% meðalverðmunur á milli verslana – Iceland dýrast, Bónus ódýrast

Í könnuninni var verð á 82 algengum vörum skoðað en 52% meðalverðmunur var á vörunum á milli
verslana. Þannig var verðmunur á mjólkurvörum allt frá 10% og upp í 58%, verðmunurinn á
kjötvörum og áleggi var frá 10% og upp í 84% og verðmunur á brauðmeti og morgunkorni frá um
30% og upp í 135%. Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 41 tilvikum en þar á eftir
koma verslanirnar Fjarðarkaup og Víðir, báðar með lægsta verðið í 13 tilvikum og í fjórða sæti var
Krónan með lægsta verðið í 11 tilvikum. Iceland var oftast með hæsta verðið eða í 35 tilvikum af 82 á
meðan Hagkaup var með hæsta verðið í 26 tilvikum og Víðir í 13 tilvikum.

 

42% meðalverðmunur á kjöti og fiski – 84% verðmunur á ferskum kjúklingi
Kjöt og fiskur eru með dýrustu vörum sem fólk setur í innkaupakörfuna hjá sér og því vekur mikill
verðmunur í þeim vöruflokki nokkra athygli. Sem dæmi má nefna að 84% verðmunur var á heilum
ferskum kjúklingi milli búða og 68% á frosnum ýsuflökum. Ódýrastur var kjúklingurinn hjá Costco
(649 kr. kg) en dýrastur hjá Kjörbúðinni(1197 kr. kg) á meðan frosin ýsuflök voru ódýrust í Krónunni á
1299 kr. kg en dýrust í Kjörbúðinni á 2183 kr. kg. Þá var 75% verðmunur á dýrasta og ódýrasta frosna
þorskinum, ódýrastur var hann á 1918 kr. kg í Bónus en dýrastur á 1477 kr. kg í Fjarðarkaupum.
Töluverður munur var á brauðmeti og morgunkorni en þrátt fyrir að vera ekki dýrustu
vörurnar eru þetta oft mikið keyptar vörur á heimilum landsmanna. Í þessum vöruflokki var
meðalverðmunurinn 61% en mesti verðmunurinn var á Cheeriosi milli búða eða 135%, lægst var
kílóverðið í Krónunni eða 615 kr. en hæst í Iceland eða 1446 kr. Þá var 54% verðmunur á Lífskorn
brauði með tröllahöfrum og Chia fræjum á milli búða en þar var Bónus með lægstaverðið 369 kr. en
Víðir með það hæsta eða 568 kr. Verðið á Kellogs kornfleks var einnig æði misjafnt en hæsta
kílóverðið mátti finna í Víði á 773 kr. en það lægsta í Costco á 450 kr. Sömu sögu var að segja um
haframjölið frá Solgryn en þar var verðmunurinn 65%, dýrast var það í Víði á 526 kr. kílóið en ódýrast
í Bónus á 320 kr.

Mikill verðmunur á ávöxtum og grænmeti

Mikill verðmunur var á ávöxtum og grænmeti eða frá 66% upp í 137%. Mesti munurinn var á
Acocado en kílóið af því kostaði 1249 kr. í Costco en 528 kr. í Fjarðarkaupum. Þá var 125%
verðmunur á Mangó milli verslana, dýrast var það hjá Víði á 785 kr. kílóið á meðan kílóið var á 349 í
Iceland. Verðmunurinn á banönum milli búða var 123% en ódýrastir eru þeir í Bónus á 179 kr. kg en á
399 kr. kg í Hagkaup.

 

Vöruúrval og verðmerkingar

Costco var með minnsta vöruúrvalið af öllum búðunum en þar voru einungis 13 vörur til af þeim 82
sem voru kannaðar. Næstminnsta vöruúrvalið mátti finna í Víði en þar vantaði 19 vörur af þeim 82
vörum sem voru kannaðar. Í Víði var verðmerkingum einnig mest ábótavant en í 14 tilfellum voru
verðmerkingar ekki til staðar. Í Kjörbúðina vantaði 18 vörur af vörulistanum sem var kannaður.

 

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 82 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur þegar
hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef að afsláttur er tekinn fram á hillu er
hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru Bónus við Hallveigarstíg, Nettó
í Mjódd, Krónan niðri á Granda, Hagkaup í Skeifunni, Iceland í Engihjalla, Fjarðarkaup, Víðir
Sólvallagötu, Costco og Kjörbúðin Garði.  Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en
ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af