Eyjan

Tvær reglur sem kunna að rekast á

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 9. febrúar 2018 08:19

Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Þeir sem hafa tekið til máls að undanförnu um skipun dómara virðast hafa verið sammála um að velja beri hæfasta umsækjandann. Hæfni manna til að gegna dómarastöðu er metin á grundvelli einstaklingsbundinnar hæfni. Við skoðum feril þeirra og verk og leggjum mat á hæfni þeirra.
Margir þeirra sem tjá sig telja aðra reglu gilda auk reglunnar um hæfni. Sú regla kveður á um að kynjahlutföll dómara í fjölskipuðum dómstól skuli vera sem næst jöfn.

 

Þeir virðast sumir telja að þetta sjónarmið eigi að víkja fyrrnefndu reglunni
um einstaklingsbundna hæfni til hliðar. Öllum ætti að vera ljóst að síðari
reglan gerir upp á milli manna eftir kynferði þeirra. Hún mælir nefnilega
fyrir um að hæfari einstaklingur kunni að þurfa að víkja fyrir öðrum,
sem ekki er jafn hæfur, ef sá síðarnefndi er af því kyni sem þarf til að
ná jafnvægi milli kynjanna í fjölda dómaranna við hinn fjölskipaða
dómstól.

Sjálf stjórnarskráin segir að síðari reglan sé óheimil. Kveðið er á um þetta í 65.
gr., þar sem segir:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis,
trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags,
ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

(leturbr. mínar)

Þegar karl er tekinn fram yfir konu við val milli umsækjenda um dómarastöðu
í þeim eina tilgangi að jafna fjölda dómara eftir kynferði, jafnvel þó að konan
teljist hæfari til starfsins, er verið að brjóta gegn hinni stjórnarskrárbundnu reglu
um jafnrétti kynjanna.

Mér er ekki grunlaust um að fyrir hafi komið að ósanngirni hafi stundum verið
beitt í hæfnismati í þeim tilgangi að jafna stöðu kynjanna við þá stofnun sem um
ræðir. Þetta er þá gert án þess að hafa orð á því. Það getur ekki verið heimilt.
Skondið en ekki mjög skemmtilegt.

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af