Eyjan

Þrjár kvikmyndir um Ólympíuleika

Egill Helgason
Föstudaginn 9. febrúar 2018 21:05

Vetrarólympíuleikarnir eru að hefjast í Suður-Kóreu og ég hef verið að horfa á nokkrar kvikmyndir sem fjalla um Ólympíuleika. Þær hafa verið að birtast í Criterion-safninu. Þar er fyrsta að telja sjálfa Olympíu eftir Leni Riefensthal, umdeilda mynd eftir umdeildan leikstjóra. Enn í dag er rifist um hversu mikill nasisti hún hafi verið. En myndin er algjört snilldarverk, nú 82 árum síðar horfir maður á sum hlaupin í myndinni og verður raunverulega spenntur. Slíkur meistari var Riefensthal í beitingu myndmálsins. Hún var snillingur í kvikmyndalist á borð við hinn rússneska Eisenstein – en bæði gerðu þau samning við skrattann.

Hún lagði ótrúlega mikla vinnu við að þróa hvernig væri hægt að mynda íþróttaviðburði – til þess þarf að hafa margar myndavélar og þær þurfa að hreyfast. Leikarnir voru gríðarleg sviðsetning nasista til að sýna kraft sinn og mátt, en það var mesti íþróttamaður sögunnar, Jesse Owens, sem setti strik í reikninginn og vann fern gullverðlaun. Sagan af viðureign hans við Þjóðverjann Lutz Long og Jesse Owens í langstökkinu er fræg. Með þeim tókst vinátta, en Long dó í hernaði 1943. Þeir skrifuðust á og Long bað Owen að segja sonum sínum frá því hvernig heimurinn var á friðartímum ef hann félli í styrjöldinni. Owen stóð við það.

Ein frægasta senan í Ólympíu er þegar Jesse Owens flýgur í loftinu í langstökkinu, setur heimsmet og sigrar. En það er fleira magnað í myndinni, til dæmis hvernig Riefensthal myndar maraþonhlaupið.

 

 

Hitler var náttúrlega ekki hrifinn af Owens. En svo er dapurleg sagan af því að Owens var ekki boðið í Hvíta húsið við heimkomuna frá Berlín. Þangað fóru hins vegar hvítir sigurvegarar af leikunum. Var F.D. Roosevelt rasisti?

Íslendingar tóku þátt í þessum leikum, sendu meðal annars lið í sundknattleik, sem nú er ekki lengur iðkaður hér á landi. Í myndinni bregður fyrir íslenska spjótkastaranum Kristjáni Vattnes. Gæti verið að hann sé ódauðlegastur íslenskra íþróttamanna fyrir vikið.

Önnur mynd, miklu ófullkomnari er löng úttekt á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi 1912. Þá er annar tími. Karlar með pípuhatta, konur í síðum kjólum og barðastóra hatta á áhorfendapöllum. Allur íþróttabúnaður virkar lélegur og aðstæðurnar forneskjulegar. Samt finnst manni að árangurinn í sumum greinum sé furðu góður. Menn gátu líka hlaupið, stokkið og kastað á þeim tíma.

Þessi mynd var endurgerð árið 2016. Hún er heilar 270 mínútur. Það er eitthvað róandi við að horfa á þetta. Ég er samt ekki kominn út á enda, og líklega sést ekki þar sem íslenski flokkurinn sýnir glímuna okkar. Glíman var viðurkennd sem sýningargrein á Stokkhólmsleikunum, en náði ekki að verða Ólympíuíþrótt. En þetta var fræg ferð, og einn glímumaðurinn, Sigurjón Pétursson, keppti líka í rómverskri glímu. En það er margt sem virkar dálítið undarlegt. Það er til dæmis hörð keppni í reiptogi og keppendur í skotfimi ganga um í sínum borgaralegu fötum, reykjandi vindla.

 

 

Þriðja myndin heitir 13 dagar í Frakklandi og er eftir kvikmyndagerðarmanninn Claude Lelouch. Hún fjallar um Vetrarólympíuleikana í Grenoble 1968. Aðalgarpurinn var skíðamaðurinn franski Jean-Claude Killy. Myndin er í þessum lausa, eilítið fjarræna stíl, sem Lelouch ástundaði – samanber kvikmyndina Maður og kona sem hann gerði aðeins fyrr.

Lelouch hefur ekki sérstakan áhuga á íþróttakeppninni sjálfri eða úrslitum, heldur er það eins og oftar hreyfingin sjálf sem heillar hann, bæði hvernig íþróttamennirnir hreyfast og öll tækin kringum keppnina, og svo hreyfingar sjálfrar myndavélarinnar.

Það var sjálfur De Gaulle forseti sem bað Lelouch um að gera þessa mynd. Tónlistin er eftir hinn fræga Francis Lai. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar sem ég man eftir, og þeir fyrstu eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar. Þetta hafði þau áhrif að áratug síðar stóð ég frammi fyrir því að velja hvert ég ætlaði að fara á frönskunámskeið. Valið stóð milli einhverra borga í Frakklandi og ég valdi Grenoble. Var þar í rúman mánuð sem unglingur. Ekki fannst mér borgin sérlega skemmtileg og ég hef ekki komið þangað síðan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af