Eyjan

Ragnar Þór svarar ásökunum Viðskiptablaðsins

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 15:42

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Mynd/DV

Viðskiptablaðið fjallar í dag um formann VR, Ragnar Þór Ingólfsson. Honum er tileinkuð heilsíða undir yfirskriftinni „Íbúðaævintýri Ragnars Þórs“ og er það sjálfur Óðinn sem heldur á penna.

Greinin hefst á þessum orðum:

„Ein alvarlegasta, en um leið algengasta, hugsanavilla sem stjórnmálamenn gera er að líta á fé annarra sem sitt eigið leikfang.“

Skömmu síðar segir:

„Hægt er að finna slíka stjórnmálamenn víðar en á Alþingi og í sveitarstjórnum víða um land. Þeir hafa einnig fundið sér samastað í félagasamtökum, eins og stéttarfélögunum.“

 

Hér er átt við Ragnar Þór, sem segir grein Viðskiptablaðsins níða sig niður.

Fundið er Ragnari flest til foráttu í greininni, sérstaklega hugmynd hans um að bjóða upp á ódýrari leiguíbúðir, um 15-30% undir markaðsverði.

 

Ragnar segir í samtali við Eyjuna að hann hljóti að vera að gera eitthvað rétt, fyrst Viðskiptablaðið fjalli um hann á þennan hátt. Varðandi upphafsorð greinarinnar spyr Ragnar:

„Er Viðskiptablaðið að gefa í skyn, að ég sem formaður VR og stjórn VR og trúnaðarráð félagsins, séum að fara nýta okkar sjóði með sama hætti og Samvinnutryggingasjóðurinn var notaður ? Er blaðið að gefa í skyn að við séum að nýta okkar sjóði með sama hætti og bótasjóðirnir voru tæmdir af tryggingafélögum? Og hvaða öfl skyldu hafa staðið á bak við það ?“

 

Þá segir Viðskiptablaðið að Ragnar hafi „óeðlilega afstöðu“ til sjóða VR, sem samkvæmt samþykktum félagsins séu ekki hugsaðir til þess að gefa stjórn VR lausan tauminn í fjárfestingum. Ragnar segir þetta ranga fullyrðingu:

„Þeir fullyrða að ég sé að nota ákveðna sjóði í þetta verkefni. Við eigum aðra sjóði og höfum því svigrúm til að ráðast í þetta verkefni.  En það verður að sjálfsögðu ekki tekið úr varasjóði, sjúkrasjóð, orlofssjóði, eða verkfallssjóði. Þeir peningar eru eyrnamerktir og við myndum aldrei nota það fé. Við eigum félagssjóð sem við getum ráðstafað í aðra sjóði ef þarf. Hugsanlega þurfum við að breyta samþykktum félagsins til þess að ráðast í þetta verkefni og  ég er einmitt að hitta baklandið til þess að ræða þessa hugmynd. En auðvitað þurfa félagsmenn okkar að samþykkja hugmyndina. Ekki Viðskiptablaðið.“

 

Viðskiptablaðið segir einnig að hugmynd Ragnars um að bjóða ódýrari leiguíbúðir muni ekki hafa áhrif til lækkunar á markaði, þar sem Ragnar telji að hátt verð ráðist einkum af græðgi leigusala, meðan að vísitala íbúðaverðs hafi rokið upp um 93% frá árinu 2010. Hugmynd Ragnars gæti því ýtt undir hærra leiguverð, með áhrifum á vísitölu, að minnsta kosti leiði hún ekki til lækkunar.

Ragnar segir málið einfalt:

„Það eina sem er rétt hjá Viðskiptablaðinu er að húsnæðisvandinn orsakast af vöntun á húsnæði. Það eina sem leysir hann er aukið framboð. En hvernig viðskiptamódel viljum við vera með ? Í dag ræður markaður för, hæstbjóðendum er selt og leigt. Við erum einfaldlega að skoða það að kaupa íbúðir til leigu, eða að byggja. Ef við byggjum getum við lækkað leiguverð um allt að 30%, ef við leigjum, getum við lækkað leigu um 15% Við leysum ekki allan húsnæðisvandann með því, en við erum sannarlega að vekja athygli á græðginni sem er í gangi og hvernig markaðurinn hefur fengið að ráða för, þetta er bara vígvöllur. Við eigum að hugsa þetta út frá langtímahagsmunum þjóðarinnar, í stað þess að græða sem mest á sem skemmstum tíma.“

Ragnar ber einnig til baka fullyrðingu Viðskiptablaðsins, um að hann telji fyrirtæki vera „vond“:

„Þetta er fráleit fullyrðing. Ég spurði einfaldlega hvort við eigum, sem stéttarfélag, að nota sjóði okkar til að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum ? Hver er þá hvatinn að krefjast ávöxtunar á sjóðum okkar ? Þetta er vandamál verkalýðshreyfingarinnar, þessi þversögn. Við erum að skipa í stjórnir lífeyrissjóðanna, sem eru að hámarka arðsemi sinna fjárfestinga, til dæmis í smásölu. Þá þarf að lækka kostnað og hækka álagningu. Og það er ekki gert öðruvísi en með lækkun launa. Það er þessi þversögn sem ég hef verið að gagnrýna í mörg ár, að verkalýðshreyfingin skuli vera að vasast í þessu.“

Þá segir Ragnar í lokin, að hann finni vel fyrir þeim titringi sem hann veldur hjá ákveðnum hópum í þjóðfélaginu:

„Já mikil ósköp, ég finn titringinn alveg upp í skrifborðsstólinn hjá mér. Ég hef talað fyrir þessum low profit leigufélögum í 10 ár, eins og margir aðrir. En það hefur aldrei neitt gerst. Svo stíg ég fram núna sem formaður VR og lýsi yfir áhuga á að gera þetta fyrir alvöru og þá fer auðvaldið á hliðina. Og það er alveg eðlilegt að kerfið fari á hliðina þegar það sér fram á að missa spón úr aski sínum og þeirra sem græða mest á þessu ástandi. Og það er auðvitað frábær vettvangur fyrir þá að koma skoðunum sínum á framfæri í Viðskiptablaðinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af