Eyjan

Metþátttaka íbúakosningar í Kópavogi

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 12:55

Börn að leik í tækjum sem kosið var um 2016

Metþátttaka var í rafrænum íbúakosningum í Kópavogi sem stóðu frá 25.janúar til 5. febrúar, eða 18% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi. Hlutfallslega flestir kusu í Linda- og Salahverfi eða 24%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

 Okkar Kópavogur er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í bænum. Alls hlutu 37 hugmyndir brautargengi í verkefninu, en 200 milljónum verður varið í verkefnin. Framkvæmd þeirra hefjast í vor en lýkur á næsta ári.

Markmið verkefnisins er að hvetja íbúa til að taka þátt í málefnum sem varða nærumhverfi þeirra. Leggja fram hugmyndir og útdeila fjármagni í smærri framkvæmdir á vegum bæjarins með íbúakosningu. Verkefnið í heild sinni er í þremur liðum; hugmynd, kosning og framkvæmd.

 Rúmlega 5.000 manns tóku þátt í kosningunni sem er 18% Kópavogsbúa 16 ára og eldri. Tæplega 60% þátttakenda voru konur, ríflega 40% karlar. Þátttakendur á aldrinum 31-40 voru fjölmennastir, 1.558 eða eða 31%, fast á hæla fylgdi aldurshópurinn 41-50 eða 1.531.

Sú tillaga sem flest atkvæði hlaut var að bæta göngu- og hjólreiðarleiðar frá Nýbýlavegi yfir Grænatún, en 710 manns kusu með tillögunni, sem er sögð kosta tvær milljónir.

Þar næst kom gangstéttargerð miður brekku á Digranesvegi, sem hlaut 702 atkvæði, en kostnaðurinn er sex milljónir.

Þá vildu 623 bæta aðkomu og öryggi við Sundlaug Kópavogs, sem kostar þrjár milljónir.

 

Síðast þegar kosið var í Okkar Kópavogi tóku 3.500 manns þátt eða 12,5% þeirra sem hafa kosningarétt. Kjósendum fjölgar þannig um ríflega 1.500 manns eða 43%.

Heildaryfirlit niðurstaðna má lesa hér í tenglinum: Niðurstöður kosninga 2018

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu Kópavogsbæjar www.kopavogur.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af