Eyjan

Vinnur að gerð hvítbókar um fjármálakerfið

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 19:00

Bjarni Benediktsson Mynd/EPA

Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst skipa starfshóp sem vinna á hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi, í samræmi við stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar. Markmiðið er að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að stefnumarkandi ákvarðanir um fjármálakerfið verði teknar eftir umfjöllun Alþingis um framtíðarsýn fjármálakerfisins á Íslandi sem byggi á sérstakri hvítbók um efnið. Hvítbókin hafi að leiðarljósi aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleika. Í sáttmálanum segir einnig að ríkisstjórnin vilji vinna að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu, að dregið verði úr áhættu vegna óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og að sérstaklega verði litið til annarra lítilla opinna hagkerfa og reynslu annars staðar á Norðurlöndunum við mótun framtíðarsýnarinnar.

Starfshópnum er falið að ljúka vinnu sinni fyrir 15. maí með skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins verður formaður hópsins.

Í hópnum munu einnig sitja:

  • Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður lausafjáráhættu og fjármálafyrirtækja hjá Seðlabanka Íslands
  • Guðjón Rúnarsson, lögmaður fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja
  • Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð
  • Sylvía K. Ólafsdóttir, deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af