Eyjan

Á að byggja íbúðahverfi í Örfirisey?

Egill Helgason
Sunnudaginn 21. janúar 2018 14:11

Eyþór Arnalds vekur upp hugmynd frá því fyrir hrun og talar um íbúðabyggð í Örfirisey. Nefnir allt að 15 þúsund íbúa í þessu sambandi.

2007 voru kynntar hugmyndir um íbúðabyggð í Örfirisey eins og sjá má í þessari frétt úr Morgunblaðinu. Þá var lagt til að olíutankarnir hyrfu og svæði sem aðallega er lagt undir verkstæði og slíkastarfsemii en að auki yrðu uppfyllingar við eyjuna stækkaðar.

Mestöll byggðin á Grandanum og í Örfirisey er núorðið á landfyllingum.

Þessi áform voru lögð á hilluna eftir hrun. Síðan hefur ýmislegt breyst á svæðinu. Á Grandanum hefur sprottið upp lífleg starfsemi smáfyrirtækja. Marshallhúsið hefur verið endurreist sem listamiðstöð. Og svo það kannski ekki síst að Reykvíkingar hafa – með auknum ferðamannastraumi – áttað sig betur á aðdráttarafli hafnarinnar. Hún er í raun helsta djásn borgarinnar.

Nokkur samstaða hefur myndast um að þrengja ekki meira að höfninni en orðið er. Það er vel. Við getum verið stolt af því að hafa eina stærstu fiskihöfn í heimi innan borgarmarkanna.

Fremst á  Grandanum er nú einhvers konar svar Vesturbæjarins við Skeifunni, verslanir sem eru reknar þar í skemmum og heldur ótútlegum húsum, Bónus, Nettó og Krónan, og svo Byko, Elko og Rúmfatalagerinn. Að ógleymdri Sorpu. Öll þessi starfsemi er á uppfyllingum.

Íbúðahverfi í Örfirisey er alls ekki fráleit hugmynd, en þrennt mælir þó á móti því. Höfnin, eins og áður segir. Umferðin – leiðirnar frá Grandanum eru þröngar og þegar er talsverður umferðarþungi þar. Í kringum höfnina verða alltaf talsverðir þungaflutningar. Með tilliti til Hafnarinnar er olíustöðin á ágætum stað. Og svo hljótum við að spyrja varðandi nýframkvæmdir sem standa svo lágt í landinu – hvað ef sjávarstaða hækkar með loftslagsbreytingum?

Annars væri í raun ekkert því til fyrirstöðu að stækka uppfyllingarnar enn. Örfirisey var stærri við landnám en hún varð síðar, hún minnkaði í tímans ráðs vegna landbrots. Eitt af því sem hefur verið til umræðu er bygging knatthúss fyrir KR. Það er ljóst að því er ekki hægt að koma fyrir nálægt á KR-svæðinu sjálfu, en Grandinn er ekki nema steinsnar þaðan frá.

Hér eru svo nokkrar myndir sem sýna hvernig Örfirisey og Grandinn hafa þróast í tímans rás.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af