Eyjan

Strætó að eldast – Um helmingur 10 ára eða eldri

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 19. janúar 2018 13:30

Samgöngumál borgarinnar eru nú í brennidepli, þegar styttist í sveitastjórnarkosningar. Ljóst er að samgöngumál verða eitt af stóru kosningamálunum, ekki síst almenningssamgöngur, þar sem Borgarlínan hefur verið í forgrunni. En hvernig stendur Strætó ?

Samkvæmt Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdarstjóra Strætó, eru 49 af 95 strætisvögnum fyrirtækisins 10 ára eða meira og eru tveir þeirra 18 ára gamlir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Yngstu níu vagnarnir hafa verið keyptir á síðustu þremur árum. Alls 17 vagnar Strætó eru keyrðir meira en milljón kílómetra og fimm þeirra eru keyrðir meira en 1.2 milljónir kílómetra. Algengast er að vagnarnir séu keyrðir um 400.000 kílómetra. Þetta kom fram á stjórnarfundi  Strætó í byrjun árs, til þess að meta áhættu í rekstrinum, meðal annars, að sögn Jóhannesar.

Jóhannes segir að reyndar séu elstu vagnarnir notaðir til vara, og sumir þeirra gangi eins og klukkur. En vissulega sé fylgni milli viðhaldskostnaðar og aldurs, oft sé talað um að milljón kílómetrar, eða tíu ár sé eðlilegur endingartími.

„Það er ekki hagkvæmt að vera með svona marga gamla vagna. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg þróun í vélum og eldsneytisnotkun og ekki síst hvað varðar umhverfisvænleika vagnanna. Eftir því sem þeir eru nýrri og fullkomnari er það betra fyrir umhverfið og reksturinn. Með hærri aldri vagna er mengunin meiri og áhætta í rekstri eykst, ná kvæmlega eins og með heimilisbílinn hjá fólki,“

er haft eftir Jóhannesi í Morgunblaðinu.

Hann segir að átak hafi verið gert varðandi endurnýjun strætóflotans og útboð fyrir árið 2018 hafi þegar farið fram. Varið verður 300 milljónum króna til að kaupa fimm nýja vagna að lágmarki, en stykkið kostar cirka 30-60 milljónir. Samkvæmt Jóhannesi eru dísilvagnar ódýrastir, en vetnisvagnar dýrastir.Jóhannes viðurkennir að fyrirtækið vildi geta endurnýjað vagnana hraðar til að losna við rekstrarlega áhættu, en það velti á fjármagni. Vélarbilun í strætisvagni getur kostað 3-7 milljónir og ný sjálfskipting getur kostað um 2-5 milljónir.

Samkvæmt Jóhannesi eru tveir metanvagnar í notkun og níu rafmagnsvagnar eru væntanlegir. Alls 29 vagnar eru dísilvagnar í Evrópustaðli 6 um mengun, sem er minnst mengandi staðallinn. Í staðli 2, sem mengar mun meira, eru tíu vagnar, en enginn þeirra er í staðli 0 og 1, sem menga mest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af