Eyjan

Reykjavíkurborg kaupir Sævarhöfða af Faxaflóahöfnum

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 12. janúar 2018 20:00

Gísli Gíslason hafnarstjóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifa undir kaupsamninginn

Í dag var gengið frá kaupum Reykjavíkurborgar á Sævarhöfða 33 af Faxaflóahöfnum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Gísli Gíslason hafnarstjóri skrifuðu undir kaupsamninginn. Kaupin eru gerð í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á lóðinni og landfyllingu henni tengdri. Heildargreiðslur fyrir landið og húseignir eru nær 1,1 milljarður króna.  Lóðin Sævarhöfði 33 er alls um 76 þús. fermetrar en einnig er keypt 400 fermetra skrifstofubygging, rúmlega 800 fermetra verkstæði og 400 fermetra vörugeymsla, sem og 100 metra viðlegukantur.

Kaupin eru gerð að undangengnum samningum við Björgun ehf. um brottflutning og hreinsun svæðisins ásamt gerð hluta þeirrar landfyllingar sem fyrirhuguð er. Um langt skeið hefur legið fyrir að notkun svæðisins muni breytast úr hafntengd starfsemi yfir í íbúðabyggð. Fyrir liggur rammaskipulag um svæðið og er deilskipulag í auglýsingaferli. Umhverfismat fyrir landfyllingu liggur fyrir ásamt framkvæmdaleyfi og eru framkvæmdir við fyllingargerðina hafnar af hálfu Björgunar samkvæmt verksamningi milli Faxaflóahafna og Björgunar þar um.

Björgun mun afhenda lóðina í áföngum og verður síðasti hlutinn afhentur 1. júní 2019. Byggingarhæfar lóðir verða þó til á hluta svæðisins nokkru fyrr, en lengri tíma mun taka að gera lóðir byggingarhæfar á nýrri landfyllingu. Gert er ráð fyrir að hefja gatnaframkvæmdir á þessu ári á hluta svæðisins.

Vilyrði fyrir tveimur lóðum á svæðinu hefur þegar verið veitt. Annars vegar til Bjargs hses. og hins vegar til Búseta á þeim lóðum sem verða fyrstar byggingarhæfar. Eftir því sem að landfyllingu vindur fram og hægt verður að losa jarðefni af þegar gerðu landi verður fyrsti hluti svæðisins síðan einnig byggingarhæfur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af