Eyjan

Yfirgnæfandi ánægja Hafnfirðinga með þjónustu sveitarfélagsins

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 11. janúar 2018 18:55

Ánægja íbúa í Hafnarfirði með þjónustu sveitarfélagsins eykst á milli ára samkvæmt niðurstöðum árlegrar þjónustukönnunar Gallup sem birtar voru á fundi bæjarráðs í morgun. Alls eru 91% íbúa í Hafnarfirði ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Ánægja með þjónustu við barnafólk og eldri borgara eykst mest sem og með leikskóla- og menningarmál.

Niðurstöður þjónustukönnunar gefa hugmynd um ánægju íbúa með ákveðna þjónustuþætti sveitarfélagsins. Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Flestir eru ánægðir með sveitarfélagið sitt sem stað til að búa á og er skor Hafnarfjarðarbæjar 4,4 af 5 mögulegum á kvarðanum 1-5. Sveitarfélagið hækkar eða stendur í stað í tólf þáttum af þrettán og þar af er marktækur munur til hækkunar á sjö þáttum milli ára, svo sem þáttum sem snúa að þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu við eldri borgara, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og skipulagsmálum almennt í sveitarfélaginu.

Aðeins einn þáttur lækkar milli ára en það er ánægja með sorphirðu en vitað er að fjölmargir Hafnfirðingar bíða spenntir eftir að plastsöfnun hefjist við heimili sem stefnt er á að fari af stað 1. mars nk.

Mikil áhersla hefur verið lögð á markvissar aðgerðir í öllum málaflokkum síðustu mánuði og ár og því ánægjulegt að aðgerðir og framkvæmdir virðist vera að skila sér í upplifun og ánægju bæði notenda þjónustunnar og þeirra sem meta ánægju út frá umræðu og samtali við aðra. Hafnarfjörður kemur vel út í samanburði við önnur sveitarfélög, er í meðaltali eða rétt yfir meðaltali allra sveitarfélaganna en er undir meðatali í aðeins tveimur þáttum. Þessi jákvæða niðurstaða undirstrikar jákvæðara viðhorf bæjarbúa til þjónustu sveitarfélagsins og er öllum hlutaðeigandi hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af