Eyjan

Baráttan um börnin – Samstaða á þingi um lækkun kosningaaldurs í 16 ár

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Þriðjudaginn 9. janúar 2018 11:33

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lækkun kosningaaldurs úr 18 árum í 16. Nokkur samstaða er um málið á þinginu, en 15 þingmenn úr öllum flokkum standa að frumvarpinu. Lögin gætu orðið að veruleika fyrir næstkomandi sveitastjórnarkosningar þann 26. maí, sem þýðir að um 9000 ungmenni gætu kosið í fyrsta skipti, líkt og kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

 

 

Andrés Ingi sagði við Eyjuna að lækkunin gæti aukið lýðræðisáhuga ungmenna:

„Við í VG höfum talað fyrir þessu í 11 ár, okkur finnst þetta vera leið til að auka lýðræðisáhuga ungs fólks og gera ungmenni að virkum þátttakendum á þessum millibilstíma þess, frá barni til fullorðins. VIð viljum taka skrefið á sveitastjórnarstiginu fyrst, því börn og ungmenni eru mestu notendur þjónustu á því stigi, í skólakerfinu til dæmis. Þarna gefst þeim færi á að vera í meiri tengslum við kjörna fulltrúa auk þess sem kjörnir fulltrúar þyrftu að hlusta á sjónarmið ungmenna í ríkari mæli,“

segir Andrés.

 
Hann bendir einnig á að þessi þróun eigi sér stað víðsvegar í Evrópu, Austurríki, Eistlandi, Möltu og Skotlandi.
En eru ungmenni á þessum aldri, sem ennþá eru skilgreind sem börn, ekki of ung til að meðtaka kosningaáróður, sem virðist sífellt verða harðari og ágengari ?

 

„Fyrst og fremst þarf að auka fræðslu ungmenna varðandi málefnið. Hvað rökin varðar, að þau séu eitthvað móttækileg fyrir áróðri, þá held ég að þau rök eigi við um fólk á öllum aldri.“

 

 

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/DV

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er andvígur því að lækka kosningaaldurinn, nema þá að sjálfræðisaldurinn fylgi með:

„Ef menn geta borið ábyrgð á þessu, geta þeir líka borið ábyrgð á lífi sínu hefði ég haldið og því ættum við bara að lækka sjálfræðisaldurinn líka, það liggur beinast við. Það er ákveðin ábyrgð sem fylgir kosningaréttinum og ef þú gerir þær kröfur til fólks að það geti tekið ábyrga afstöðu til kosninga 16 ára, en fái ekki að ráða sér sjálft fyrr en 18 ára, þá er komin upp ákveðin skekkja. Svo má það ekki kaupa sér vín fyrr en tvítugt! Þeir sem mega ekki fá sér í glas, mega ekki kjósa, er það ekki ágætis regla ?“,

 

segir Brynjar hlæjandi.

 

„En ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að lækka kosningaaldurinn, en það þarf þá að tengja þetta tvennt saman, annars er komið upp bullandi ósamræmi. Hvenær er manneskja orðin nægilega fullorðin til að taka afstöðu og ákvarðanir um líf sitt og annarra, sem þú gerir jú í kosningum? Ef menn vilja meina að það sé þegar þú ert 16 ára, þá hlýtur hitt að fylgja með.“

 

 

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins hefur þingnefndin óskað eftir umsögn frá á fjórða hundrað aðilum vegna frumvarpsins, en frestur er til 19.janúar. Unnið er af því að fá frestinn framlengdan af Sambandi íslenskra sveitafélaga, svo leggja megi fram frumvarpið á næsta stjórnarfundi þann 26. janúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af