Eyjan

Styrmir segir Reykjavík veikasta hlekk Sjálfstæðisflokksins – Krefur flokkinn svara

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Mánudaginn 8. janúar 2018 14:31

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, fer yfir snautlegan árangur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum undanfarin ár á heimasíðu sinni í dag. Fylgi flokksins hefur farið hríðlækkandi með hverjum kosningum og eru margir stuðningsmenn flokksins uggandi yfir þeim doða sem einkennt hefur forystu flokksins í borginni og er gjarnan talað um leiðtogaleysi í þeim efnum. Þeir sem nefndir hafa verið í umræðunni sem möguleg borgarstjóraefni flokksins keppast nú hver af öðrum við að gefa ekki kost á sér, nú síðast Jón Karl Ólafsson, fyrrum forstjóri Icelandair.

 

Styrmir, sem á þá ósk heitasta að Sjálfstæðisflokkurinn ráðist í gagngera sjálfsskoðun, ekki síst gagnvart hruninu, leitar skýringa á því í pistli sínum hvernig standi á því að svo sé komið fyrir stærsta stjórnmálaflokki landsins:

„Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga hljóta að fara fram umræður innan flokksins um það hvað valdi þessari gjörbreyttu stöðu á fylgi hans í höfuðborginni, sem áður var hans sterkasta vígi en er nú hans veikasti hlekkur. Er það vegna þess að hefðbundnir kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafi í stórum stíl flutt í nágrannasveitarfélög? Það kann að vera skýring að hluta en ekki öllu leyti. Er það vegna þess að ímynd Sjálfstæðisflokksins hafi þrengst svo mjög í huga kjósenda almennt? Árangur í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor byggist ekki bara á frambjóðendum eða stefnumálum. Hann byggist líka á því hvort Sjálfstæðisflokkurinn gerir yfirleitt tilraun til að svara spurningum sem þessum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af