fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Gerhard Schröder, gamall, vestrænn stjórnarleiðtogi í rússnesku feni

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 22. ágúst 2017 13:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vladimír Pútín og Gerhard Schröder. Mynd/EPA

Eftir Björn Bjarnason:

Á vefsíðu danska blaðsins Jyllands-Posten birtist sunnudaginn 20. ágúst harðorður leiðari um Gerhard Schröder, fyrrv. Þýskalandskanslara. Þar sem segir að tvær ástæður séu fyrir því að hann valdi hneyksli með setu í rússneskum fyrirtækjastjórnum.

Hér birtist leiðarinn í lauslegri þýðingu:

Gerhard Schröder var kanslari Þýskalands um aldamótin. Hans er ekki minnst á jákvæðan hátt nema með einni undantekningu. Hann þótti hrokafullur, einkum gagnvart fulltrúum minni landa, og meira að segja forystumenn úr hópi danskra jafnaðarmanna önduðu léttar þegar borgaralegi stjórnmálamaðurinn Angela Merkel tók við af flokksbróður þeirra árið 2005.

Mesta afrek hans var að fá samþykktar breytingar á vinnulöggjöfinni; þær eru meðal þess sem hefur stuðlað að efnahagslega árangrinum sem sambandslýðveldið nýtur um þessar mundir. Frá því að hann lét af embætti hefur Schröder starfað á þann hátt sem aðeins er til stórvandræða. Framganga hans er einnig vítaverð. Sem kanslari vann hann að því að umdeild gasleiðsla Nord Stream yrði lögð til að flytja orku frá Síberíu til Vestur-Evrópu. Fáeinum vikum eftir að hann hvarf úr embætti réð Vladimir Pútín Rússlandsforseti hann sem stjórnarformann í Nord Stream félögunum. Skyndileg vistaskipti hans voru harðlega gagnrýnd, meira að segja mátti heyra jafnaðarmenn muldra að þetta væri ekki beint heppilegt.

Kanslarinn fyrrverandi er orðinn 73 ára og honum finnst greinilega ekki nóg að gert. Hann er tilnefndur í stjórn Rosneft, eins stærsta olíufélags heims. Rosneft er einnig rússneskt, forstjórinn, Igor Setjin, er að sögn nánasti trúnaðarmaður Pútins og hefur staðið við hlið hans síðan hann var varaborgarstjóri í St. Pétursborg. Rosneft er auk þess að hluta á bannlista ESB vegna innlimunar Rússa á Krím. Að eigin sögn styður félagið gjörspilltan og óhæfan forseta Venezúela, Nicolãs Maduro, með 6 milljarða dollara láni, og það er tæki Pútins til viðskipta í löndum eins og Líbíu og Írak.

Schröder finnst nú að hann eigi að ýta undir virðingu þessa gengis eftir því sem hann megnar. Fram hjá því verður ekki litið að hann starfaði lengi í þágu lýðræðisins. Það er meira en segja má um gamla KGB-manninn Pútin og félaga hans. Schröder var ekki kallaður til stjórnarstarfa í Nord Stream eða Rosneft vegna frábærrar reynslu úr viðskiptalífinu. Lengst af hefur hann verið stjórnmálamaður og tengslanet hans er víðtækt. Allt er þaulhugsað af Rússunum.

Þetta er fyrst og síðast hneyksli, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að Þjóðverjar eru sérstaklega, og stundum næstum á dularfullan hátt, veikir fyrir Rússum. Í fyrsta lagi vegna þess að hann fær fé frá fyrirtæki sem hann hafði sem kanslari skömmu áður ýtt úr vör. Í öðru lagi vegna þess að í raun starfar hann fyrir rússneskt ríkisfyrirtæki sem fer ekki eftir almennum reglum og er flækt inn í mafíukerfi sem nær yfir Kreml eða Kreml tengist náið.

Aðþrengdur Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) í Þýskalandi þarf síst af öllu á Rússlandsævintýri Schröders að halda. Við blasir að SPD tapi illa í þingkosningunum 24. september og það er sama hvað Martin Schulz, kanslaraefni flokksins, gerir að umtalsefni, allt fellur það dautt til jarðar. Nú verður hann einnig að verja sig vegna frama Schröders.

Gamli kanslarinn segir sjálfur að hann telji sig ekki skaða flokk sinn með stjórnarsetu sinni. Það sýnir aðeins skilningsleysi hans. Tjónið sem SPD verður fyrir vegna ruglsins í Schröder veldur jafnaðarmönnum leiðindum. Það sem þó er verst af öllu er að hann hefur að engu reglurnar sem iðnvædd ríki leggja áherslu á að skerpa m. a. gagnvart þróunarríkjunum. Schröder ætti að draga sig í hlé og njóta eftirlauna sinna. Það er þó líklega til of mikils mælst að hann sýni þá skynsemi.

Birtist fyrst á vef Varðbergs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn