fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Nýr framkvæmdastjóri iðnrekenda: „Sigurður býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á íslensku efnahagslífi“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 27. júní 2017 16:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dr. Sigurður Hannesson.

Sigurður Hannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.  Hann tekur við starfinu af Almari Guðmundssyni sem lét af störfum fyrir skömmu.

Samtök iðnaðarins eru regnhlíf sex samtaka sem sameinuðust á sínum tíma, en það voru Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Meistara- og verktakasamband byggingamanna, Verktakasamband Íslands, Félag íslenska prentiðnaðarins og Samband málm- og skipasmiðja.

Sigurður hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Kviku banka. Hann hefur verið afar áberandi í íslenskri þjóðmálaumræðu á undanförnum árum; var varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og kynnti áætlun stjórnvalda um losun þeirra árið 2015. Þá var Sigurður formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna 2013. Auk starfa á fjármálamarkaði hefur Sigurður meðal annars verið prófdómari við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og stundað kennslu við Háskóla Íslands og Oxford háskóla. Sigurður er stærðfræðingur að mennt með doktorspróf frá Oxford háskóla og er með próf í verðbréfamiðlun.

Hann var um nokkurt skeið formaður málefnanefndar Framsóknarflokksins og einn nánasti ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er hann var forsætisráðherra.

Sigurður er kvæntur Gunnhildi Ástu Guðmundsdóttur sem starfar hjá Íslandsstofu.

„Samtök iðnaðarins bjóða Sigurð Hannesson velkominn til starfa. Við erum ánægð að fá svo öflugan liðsmann sem Sigurður er í hóp kraftmikilla starfsmanna SI og væntum mikils af samstarfi okkar við hann. Starf SI hefur verið öflugt og ljóst að næg verkefni eru framundan. Sigurður býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á íslensku efnahagslífi og þekkir því vel hvernig umhverfi íslensks atvinnulífs þarf að vera til að hér megi margvíslegur iðnaður skapa verðmæti til hagsbóta fyrir land og þjóð,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, í tilkynningu.

Sjálfur kveðst Sigurður spenntur fyrir nýjum verkefnum:

„Ég hef í langan tíma fylgst með starfi SI úr fjarlægð og er sannfærður um að reynsla mín geti nýst vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem þar þarf að kljást við frá degi til dags. Öflugt og samkeppnishæft atvinnulíf skiptir landsmenn alla miklu máli. Samtök iðnaðarins spanna breitt svið atvinnulífsins, mannvirkjagerð, framleiðslu og hagnýtingu hugvits. Allt eru þetta mikilvægar uppsprettur verðmæta í samfélaginu sem leggja sín lóð á vogarskálar lífsgæða í landinu og eftirsóknarvert er að starfa við. Ég hlakka til að starfa með stjórn, starfsmönnum og félagsmönnum Samtaka iðnaðarins og vinna að því að auka vöxt og viðgang íslensks iðnaðar,“ segir Sigurður Hannesson nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt