fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Í áfalli yfir hækkun á vsk: Segir algjör kosningasvik blasa við ferðaþjónustunni

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 6. apríl 2017 22:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórir Garðarsson hefur mikla reynslu og þekkingu á ferðaþjónustunni hér á landi.

Ferðaþjónustufólk telur sig illa svikið af fölskum kosningaloforðum stjórnarflokkanna, og ekki síst Sjálfstæðisflokksins, í skattamálum sem snúa að atvinnugreininni.

Þórir Garðarsson stjórnarformaður Gray Lines-ferðaþjónustufyrirtækisins og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að frambjóðendur flokkanna hafi hvergi talað um að skattar á greinina yrðu stórhækkaðir strax á nýju ári. Þetta sé þó að gerast nú með boðuðum breytingum á virðisaukaskattkerfinu gagnvart ferðaþjónustunni.

Þórir var tekinn tali af Birni Inga Hrafnssyni í þættinum Eyjan sem var frumsýndur á ÍNN nú í kvöld.

Björn Ingi sagði í upphafi viðtalsins að ferðaþjónustuaðilar væru lítt hrifnir af því „sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem forsendur fjármálaáætlunar ríkisins til næstu ára, sem eru gjörbreyting á virðisaukaskattkerfinu sem snýr að ferðaþjónustunni. Þeir ætla að ná sér í 15 milljarða með því á ári. Sumir segja, kominn tími til að ferðaþjónustan borgi sinn skerf af kökunni en þú ert ekki sammála því?“

Í samtali við Björn Inga í Eyjuþættinum sem frumsýndur var í kvöld. Þátturinn er endursýndur reglulega á stöðinni. Sjá nánar heimasíðu ÍNN (inntv.is).

Nei, það verður að segjast eins og er að við erum enn í nettu áfalli yfir þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar…Þessu var haldið mjög leyndu. Það er alveg óhætt að segja það. Þetta er eitthvað sem við áttum ekki von á. Ef við förum aðeins aftur í tímann, og nú er nýbúið að heyja hér kosningabaráttu og annað, þá kom þetta hvergi fram hjá þessum flokkum í aðdraganda Alþingiskosninganna. Sjálfstæðisflokkurinn gekk svo langt, frambjóðendur, að segja að það yrðu ekki hækkaðir skattar á ferðaþjónustuna,

svaraði Þórir. Með hugtakinu ferðaþjónustu sagðist hann eiga við fyrirtækin, starfsfólkið og ferðamennina sjálfa.

Þeir tilheyra ferðaþjónustunni eins og þorskurinn tilheyrir sjávarútvegnum.

Þórir benti líka á að samþykkt hefði verið á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins að ekki ætti að leggja stein í götu ferðaþjónustunnar með hækkunum skatta eða gjalda.

Þetta er nú æðsta stofnun Sjálfstæðisflokksins þannig að við gerðum ráð fyrir því að það væri innistæða fyrir þessum orðum sem að frambjóðendurnir fóru með á kosningafundum og eru náttúrulega til á bandi.

Hann sagði að þetta væru hrein kosningasvik. Viðreisn hefði talað um að flokkurinn vildi einfalda virðisaukaskattkerfið og fara út í eitt skattþrep.

Það er ekki verið að gera það, þetta er eingöngu skattahækkun og ekkert annað.

Efri prósentan væri vissulega lækkuð um eitt og hálft prósent en ríkið væri þó samkvæmt útreikningum ferðaþjónustunnar að ná til sín aukalega 16 til 20 milljörðum króna með hækkun neðra þreps virðisaukaskattsins.

Þau rök sem spunameistarar fjármálaráðuneytisins hafa búið til þau halda ekki vatni, því miður.

Hér fyrir neðan má sjá afar áhugavert viðtal Björns Inga við Þóri um mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga nú um stundir:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt