Eyjan

Ritsóðar og friðflytjendur

Ari Brynjólfsson skrifar
Föstudaginn 15. desember 2017 09:00
Séra Davíð Þór Jónsson. Mynd/Sigtryggur Ari

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Sjálfsagt er hinn mjög svo áberandi skortur á umburðarlyndi í samtíma okkar óhjákvæmileg afleiðing þess að nú geta allir átt sína rödd á samfélagsmiðlum. Hver og einn verður sinn eigin fjölmiðill og miðlar skoðunum sínum til annarra. Þetta gera allflestir á yfirvegaðan og hófsaman hátt, en þó alls ekki allir. Hávaða- og óróafólkið sem svo auðveldlega úthellir skoðunum sem lýsa mannfyrirlitningu er farið að breiða úr sér sem aldrei fyrr. Mörg dæmi má nefna um heiftina og hatrið sem þessi hópur aðhyllist. Hér skal staldrað við eitt dæmi. Í síðustu viku birti DV viðtal Kristins Guðnasonar við séra Davíð Þór Jónsson.  Þar steig Davíð Þór fram sem kærleiksríkur og frjálslyndur fulltrúi kristinnar kirkju. Hann talaði máli trúfrelsis, eins og svo sjálfsagt er að kirkjunnar menn geri, og sagðist hlakka til þegar hægt yrði að fara með skólakrakka í heimsóknir í mosku. Hann lýsti moskunni sem öðruvísi kirkju.

Hér er á ferð sjálfsögð skoðun sem ekki ætti að vera hægt að gera mikið veður út af. Viðbrögðin létu þó ekki á sér standa, upp reis hópur fólks sem vandaði prestinum ekki kveðjurnar. Hann var sagður snargeggjaður, kallaður andskotans vitleysingur, fáviti og kolruglað kvikindi. Einhver sagði að Davíð Þór væri lítt skárri en Júdas, sennilega telur viðkomandi að klerkurinn hafi svikið Krist með því að virða trúarskoðanir annarra. Sóðalegasta athugasemdin af mörgum andstyggilegum var svo sú að Davíð Þór hataði kristni og vildi veg íslam sem mestan því þar væri siður að nauðga börnum!

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Ekki verður betur séð en að þeir einstaklingar sem þarna veittu innsýn í kolsvartan hugmyndaheim sinn telji sig málsvara kristni. Þeir hafa greinilega misskilið heilmikið í þeim efnum og veitir sannarlega ekki af að rifja upp boðskap Frelsarans og hleypa sólargeislum fagnaðarerindisins inn í myrka sál sína. Þeim skal ráðlagt að nýta jólin til þessa. Þá gæti Fjallræðan verið hið ágætasta lesefni, stutt, hnitmiðuð og efnisrík. Þar mun þessi hópur til dæmis rekast á fallegt orð, sem ekki hefur áður verið til í orðaforða þeirra. Þetta er orðið „friðflytjendur“.

Viðbjóðurinn sem séra Davíð Þór Jónsson fékk yfir sig vegna umburðarlyndis í trúmálum er ekkert einsdæmi. Í netheimum þykir sjálfsagt að sleppa sér og æða fram með svívirðingar í garð annarra. Sá sem talaði á þennan veg á vinnustað eða skrifaði slík orð í blaðagrein væri um leið að stimpla sig úr siðaðra manna samfélagi. En netið umber allt. Þar rotta ritsóðarnir sig saman, hafa félagsskap hver af öðrum og fitna eins og púkinn í fjósi Sæmundar fróða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af