Eyjan

Kristinn H reiðir til höggs – Sakar umhverfisráðherra um „veruleikafirringu“ og tilheyra „öfgasamtökum“

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Þriðjudaginn 12. desember 2017 13:30
Kristinn H. Gunnarsson

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmaður og nú ritstjóri Vestfirðings, gagnrýnir nýskipaðan umhverfisráðherra harðlega í leiðara blaðs síns í dag. Guðmundur I. Guðbrandsson, sem áður var framkvæmdarstjóri Landverndar, var skipaður sem fagráðherra af Vinstri grænum eftir síðustu kosningar, en sú ráðning virðist ekki vekja lukku hjá Kristni H. sem sakar umhverfisráðherra um að beita sér af fullum þunga gegn „flestum framfaramálum á landsbyggðinni.“
Kristinn nefnir kæruflóð Landverndar sem hafi hamlað uppbyggingu á Húsavík, virkjun Þeistareykja, lagningu raforkulína og kísilverksmiðjuna. Þá segir Kristinn það „umhverfisofstæki“ hvernig Landvernd hefur beitt sér gegn atvinnuuppbyggingu og framförum á vestfjörðum, til dæmis við öruggt aðgengi að raforku, vegalagningu eða laxeldi.

Þá segir hann einnig:

„mannfólkið á Vestfjörðum og velferð þess skal víkja fyrir brenglaðri mynd og veruleikafirringu svokallaðra umhverfissinna.“

Þá sakar Kristinn Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013, um að hafa vísvitandi lagt stein í götu vestfirðinga, með því að neita að leggja veginn um Teigskóg. Segir Kristinn að ummælin „fyrr frýs í helvíti en að vegur verði lagður um Teigsskóg,“ hafi heyrst á þeim tíma.
Þá segir Kristinn á öðrum stað um núverandi umhverfisráðherra:

„Það vekur athygli að umhverfisráðherrann fær þau ummæli frá félögum sínum í Vinstri grænum, sem rætt hefur verið við, að vera svartstakkur í umhverfismálum, ósveigjanlegur í skoðunum og frekjuhundur sem skammi fólk ótæpilega ef það er ekki nógi fljótt til að beygja sig undir hans vilja.“

Þá nefnir Kristinn einnig að þessi umhverfisstefna sé „stökkbreytt“ og hafi breyst í „illvígt krabbamein“ sem miði að því að vestfirðir breytist í þjóðgarð fyrir komandi kynslóðir.
Í lokin getur Kristinn ekki stillt sig um að skjóta örlítið á sinn forna fjanda, Sjálfstæðisflokkinn og sjávarútvegsráðherra hans, Kristján Þór Júlíusson:

„Við er tekin ríkisstjórn hagsmunaöfganna. Vinstri grænir tefla fram
framkvæmdastjóra öfgasamtaka og Sjálfstæðisflokkurinn þjónar öðrum
öfgasamtökum og setur handlangara helsta útgerðarauðvaldsins í sjávarútvegsráðuneytið.
Hvorugt verður Vestfirðingum eða landsmönnum til neinnar gæfu.“

 

Hér má lesa leiðarann í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af