Eyjan

„Þessi gjaldtaka er án fordæma og án alls samtals við ferðaþjónustuna“

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Mánudaginn 11. desember 2017 08:40

Fyrirtæki í ferðaþjónustu ráða nú ráðum sínum eftir að Isavia tilkynnti um fyrirhugaða gjaldtöku á stæðum fyrir hóferðabíla við flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hefst þann 1. mars. Mun gjaldið vera 7,900 krónur fyrir hópbifreiðar með 19 eða færri  sæti en 19,900 fyrir bifreiðar með fleiri en 20 sæti. Fyrir hvert skipti. Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna gjaldtökuna harðlega, bæði vegna upphæðanna sem um ræðir, en ekki síst vegna skorts á samvinnu við ferðaþjónustuna um svo stórvægilegt mál.

 

Skapti Örn Ólafsson er upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir gjaldið út í hött.

„Við gagnrýnum harðlega þessa gjaldtöku sem Isavia hefur boðað. Þessi gjaldtaka er án fordæma og án alls samtals við ferðaþjónustuna þrátt fyrir að eitt af gildum Isavia sé samvinna. Upphæðirnar sem nefndar eru til sögunnar eru auðvitað út í hött og ekki í neinu samræmi við það sem gerist og gengur á flugvöllum í Evrópu. Í London er sambærilegt gjald um 3.900 kr. á Heathrow og 2.400 kr. á Gatwick. Þá er fyrirvarinn sem gefinn er lítill sem enginn, en ferðaþjónustan er þannig atvinnugrein að unnið er langt fram í tímann. Það eiga stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækisins Isavia að þekkja vel.“

Skapti Örn segir að þegar kemur að gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu líkt og bílastæðagjöld geta ferðaþjónustufyrirtæki ekki verið ávísun á opinn tékka.

„Ferðaþjónustan er síður en svo á móti allri gjaldtöku, en samtal, samræming og sanngirni verður að eiga sér stað til að skapa viðunandi umhverfi á þessu sviði. Í glænýjum stjórnarsáttmála kemur skýrt fram að samtal og samstarf sé grunnurinn í nálgun verkefna nýrrar ríkisstjórnar. Við hvetjum því Isavia, sem er fyrirtæki í opinberri eigu, til að endurskoða þessi gjaldtökuáform í góðri sátt við ferðaþjónustuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af