Eyjan

Uppgjör við reiðina

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Föstudaginn 8. desember 2017 11:11
Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Það er bæði rétt og skylt að rifja upp hruntímann þegar óstjórnleg reiði greip um sig á svo sterkan hátt að öll siðferðisviðmið röskuðust. Það var öskrað og æpt, lögreglu var ögrað og stjórnmálamenn áttu sumir ekki lengur skjól á eigin heimili. Kvöld eftir kvöld fylltust sjónvarpsfréttatímar af myndum af fólki sem hafði engan áhuga á að sýna sjálfstjórn, heldur sleppti reiðinni lausri.

Svo sannarlega hefur fólk rétt til að láta í sér heyra og mótmæla. Gleymum því ekki að það var að tapa fjármunum, missa hús sín og atvinnu. Skiljanlega voru margir í tilfinningauppnámi og kenndu útrásarvíkingum og stjórnmálamönnum ekki síst um ástandið. Svo að segja allir sem höfðu pólitísk völd eða voru vel efnaðir voru stimplaðir sem sakamenn. Það segir sitthvað um þessa tíma að ef einhver sást á dýrum jeppa þá þótti æskilegt að berja bílinn að utan.

Það skiptir alltaf máli hvernig reitt fólk hagar sér í erfiðum aðstæðum. Sjálfsagt er að mótmæla og kalla á aðgerðir. Það er hins vegar dólgsleg aðferð að mæta fyrir utan heimili stjórnmálamanns dag eftir dag. Hver og einn borgari þessa lands getur sett sig í þá stöðu að vera inni á heimili sínu og vita af reiðum hópi fólks fyrir utan. Þetta er ekki fólk sem vill viðkomandi vel. Þetta er æst fólk sem er líklegt til alls, eins og til dæmis að meiða. Engum innandyra getur verið rótt við aðstæður eins og þessar, allra síst börnum.

Þeir sem stóðu fyrir framan hús Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Rögnu Árnadóttur og annarra stjórnmálamanna eftir hrun geta svo sem reynt að réttlæta gjörðir sínar með því að ekki hafi staðið til að meiða neinn. Þeir geta einnig borið fyrir sig stjórnarskrárvörðum réttindum til að mótmæla og tjá hug sinn. Málsvörn þeirra er hins vegar aum, hún ber vott um mannfyrirlitningu og stenst ekki. Einn mótmælenda hefur viðurkennt að hópurinn sem mætti fyrir framan hús Steinunnar Valdísar hafi áttað sig á því að hún var óttaslegin en það hafi bara fyllt þá eldmóði. Einhverjir mótmælendur iðuðu sem sagt hreinlega af ánægju vegna þess að þeir höfðu vakið óttatilfinningu. Ekki þarf að hafa mörg orð um siðferðiskennd þeirra sem haga sér á þennan hátt.

Fólk gerir mistök í lífinu og meiðir aðra, en þá ætti tími iðrunar að renna upp. Það er leitt að vita til þess að í hópi mótmælenda við heimili Steinunnar Valdísar voru menn sem sjá ekki eftir neinu.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af