Eyjan

Rúmur fjórðungur landsmanna vinnur vaktavinnu – Níunda hæsta hlutfallið í Evrópu

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Fimmtudaginn 7. desember 2017 11:35

Samanborið við önnur Evrópulönd, var vaktavinna á Íslandi fremur algeng árið 2016, en hlutfall þeirra sem hana stunduðu þá voru 26,1% launþega sem kemur Íslandi í níunda sætið í Evrópu og 7,6 prósentustigum yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

 

 
Hlutfall launþega í vaktavinnu hefur því hækkað nokkuð frá árinu 2008, en þá unnu 20,6% vaktavinnu. Þá kemur fram að ekki var mælanlegur munur milli kynjanna árið 2016. Vaktavinna var langalgengust í yngsta aldurshópnum en árið 2016 voru 55,8% launþega á aldrinum 16–24 ára í vaktavinnu á Íslandi. Þar á eftir kom aldurshópurinn 25–34 ára með 25,6%. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á hópum á aldursbilinu 35–64 ára. Innan þeirra hópa var hlutfallið sem vann vaktavinnu á bilinu 17,7% til 18,5%. Hlutfallið var lægst á meðal fólks 65 ára og eldra. Þá hefur hlutfall launþega í vaktavinnu aukist mest í tveimur yngstu aldursbilunum frá árinu 2008, úr 37,4% á meðal fólks 16–24 ára og úr 18,7% á aldursbilinu 25–34 ára.
Launþegar með háskólamenntun voru ólíklegri til að vinna vaktavinnu en launþegar með minni menntun. Árið 2016 voru um 11% launþega 25 ára og eldri með háskólamenntun í vaktavinnu. Hlutfallið var hæst á meðal þeirra sem höfðu lokið framhalds- eða starfsnámi, eða 27,5%, og hafði hækkað umtalsvert frá 2008, úr 19,6%. Þeir launþegar sem aðeins höfðu lokið grunnnámi og unnu á vöktum voru 21,8%.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af