fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Mikil óvissa hjá flokkunum í borginni

Egill Helgason
Fimmtudaginn 7. desember 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er einkennilega mikil óvissa fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sem verða haldnar eftir hálft ár.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur leiðtogaprófkjör í janúar. Innan borgarstjórnar eru þau þrjú sem hafa augastað á sætinu, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefur verið nefndur og Eyþór Arnalds, en þessa dagana er mikið rætt um Unni Brá Konráðsdóttur. Hún nýtur virðingar sem stjórnmálamaður, en samt er spurning hversu sterkt það er fyrir flokkinn að ná í borgastjórarefni austur í Rangárvallasýslu – og það fallkandídat úr síðustu Alþingiskosningum.

Dagur B. Eggertsson segist vilja halda áfram sem borgarstjóri. Það hafa verið sögur um að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður flokksins, vilji reyna að fella dag úr fyrsta sætinu hjá Samfylkingunni, en það virðist nokkuð langsótt. Annað sætið er væntanlega tryggt fyrir Heiðu, sem hefur verið mikið í sviðsljósinu vegna metoo umræðunnar. Það er frekar spurning með Hjálmar Sveinsson sem er feikilega umdeildur sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs.

Sigurður Björn Blöndal, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Gnarrs í Besta flokknum og síðar oddviti Bjartrar framtíðar, ætlar að hætta. Þá er einfaldlega spurning um hvort BF takist að koma lista í borginni. En því má reyndar ekki gleyma að BF náði mikilli fótfestu í bæjarstjórnum í síðustu kosningum, er í meirihluta í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Framsóknarflokkurinn hefur misst fyrir borð báða borgarfulltrúana sem náðu kjöri í síðustu kosningum, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu J. Guðmundsdóttur. Flokkurinn þarf semsagt að manna sína lista upp á nýtt. Allsendis óvíst er hverjir gætu tekið þar sæti – það er ekki í fyrsta sinn sem Framsókn á í erfiðleikum með að stilla upp lista í borginni.

Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Það breytir ásýnd flokksins allverulega. En líklegast er að í borginni vilji hann  halda áfram að starfa með Samfylkingunni. Ýmislegt gæti  hins vegar oltið á því hvort VG eða Samfylkingin verður stærri flokkur eftir kosningarnar. Ef VG kæmist yfir Samfylkingu gætu þau gert tilkall til borgarstjórastólsins. Líf Magneudóttir er í efsta sætinu hjá VG eftir að Sóley Tómasdóttir hvarf af vettvangi. Hún getur þó varla verið örugg með sæti sitt. Og Sóley hefur verið að hvetja til stofnunar nýs kvennaframboðs.

Viðreisn er óskrifað blað í borginni. Flokkurinn hefur aldrei boðið fram í bæjar- og sveitastjórnakosningum. Ekki er vitað hvort það er á dagskránni eða hvort flokkurinn hefur bolmagn til þess. Viðreisn virðist vera ágætlega skipulagður flokkur, en fylgi hans er takmarkað og eins fjöldi flokksmanna. Flokkurinn þyrfti að koma með býsna sterkan kandídat til að eiga möguleika á að ná inn í borgarstjórnina.

Inga Sæland ætlaði fyrst að bjóða sig fram í borginni fyrir Flokk fólksins. Svo sprakk ríkisstjórn og hún endaði inni á þingi. En væntanlega vill FF komast inn í borgarstjórn með sinn málflutning um fátækt, misskiptingu og skort.

Borgarfulltrúinn og Píratinn Halldór Auðar Svansson ætlar að hætta eftir þetta kjörtímabil. Píratar hafa alveg runnið inn í borgarstjórnarmeirihlutann undir stjórn Dags. Eins og hefur annars staðar verið sagt á þessari síðu er varla hægt að sjá mun á Samfylkingunni og Pírötum núorðið.

Loks er það Miðflokkurinn. Hann ætlar sér sjálfsagt einhvern hlut í borgarstjórn. Formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur brennandi áhuga á skipulagsmálum og borgarþróun. Kannski væri hann sjálfur heppilegasti frambjóðandinn í borginni?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki