Eyjan

Björn Blöndal um hýsingu heimilislausra í Ráðhúsinu: „Klassísk popúlistatillaga“

Trausti Salvar Kristjánsson skrifar
Miðvikudaginn 6. desember 2017 15:50

Húsnæðisúrræði fyrir heimilislausa hafa verið af skornum skammti og fréttir af þessum málaflokki tíðar undanfarið. Í viðtali við Eyjuna í dag sagðist Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hafa komið með tillögur þess efnis á borgarstjórnarfundi í gær, að hleypa heimilislausu fólki inn í Ráðhús Reykjavíkur, meðan unnið væri að langtímalausn. Oddviti Bjartrar framtíðar í borgarstjórn Reykjavíkur, S. Björn Blöndal sagði við Eyjuna að um popúlisma sé að ræða hjá Mörtu.

 

 

„Þetta er bara popúlismi og ekkert annað. Þetta eru óraunhæfar og vondar tillögur, það er hægt að leysa vandann með betri hætti og það er verið að vinna hörðum höndum að því. “

Meðal lausna Mörtu var að opna Tjarnarsal Ráðhússins og mötuneyti, meðan unnið væri að opnun húsnæðis í Víðisnesi. Þá vildi Marta gera samstarfssamning við hjálparsamtök á borð við Rauða krossinn og hjálparsveitirnar. Björn segir það enga lausn.

„Skólar eru stundum nýttir sem hjálparmiðstöðvar og Rauði krossinn er með neyðarmiðstöðvar sem eru skilgreindar á ákveðnum stöðum þegar það steðjar að náttúruvá. En þetta er bara klassísk populistatillaga sem hljómar sniðug en er í raun illframkvæmanleg og einskis virði. Þarna er engin raunveruleg lausn að baki, bara fólk sem ætlar að slá sig til riddara á mjög ódýran hátt,“

sagði Björn og benti á að tillögur meirihlutans um breytingu á fjárheimildum þess efnis að fjárheimildir velferðasviðs yrðu auknar um 60 milljónir til stuðnings við búsetu utangarðsfólks hefðu verið samþykktar samhljóða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af