fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Jóhanna Sigurðardóttir: „Ríkisráðsfundir líklega leiðinlegustu fundir sem til eru“

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 5. desember 2017 16:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisráðsfundur árið 2010

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, gaf nýlega út ævisögu sína, Minn tími. Meðal umfjöllunarefnis í bókinni eru samskipti Jóhönnu við Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi forseta Íslands, sem er ágætis skemmtilesning á köflum, ekki síst fyrir þá sem ekki eru kunnugir stjórnmálunum að tjaldabaki. Jóhanna er kannski ekki þekktust fyrir kímnigáfu sína, ekki svona opinberlega, en ekki er hægt annað en að brosa út í bæði munnvik við lýsingu hennar á því hvernig ríkisráðsfundir fóru fram í forsetatíð Ólafs Ragnars, en hafa ber í huga að þau elduðu gjarnan grátt silfur saman.

Gefum Jóhönnu orðið.

„Ég verð að bæta því við að ríkisráðsfundir eru líklega leiðinlegustu fundir sem til eru. /Ráðherrum er raðað við borðið eftir meintum virðinga- og aldursstiga ráðherra- allir eru með virðulegar leðurmöppur fyrir framan sig með gögnum sem ráðherrann á að lesa upp úr. Fundurinn fer þannig fram að forsetinn gefur orðið hverjum ráðherra fyrir sig sem þá stendur upp og ávarpar forsetann, mis virðulega eftir því hvaða mat þeir hafa á honum, lesa síðan upp frá orði til orðs alla laga- og ályktanasúpuna sem viðkomandi ráðherra hefur lagt fram og fengið samþykkta á Alþingi, með nákvæmari lýsingu á lagaheiti, númerum, dagsetningum og undirskriftum. Ríkisráðsritari nær í skjölin eftir lestur ráðherra og gengur með þau til forsetans við borðsendann. Allir bíða svo hljóðir eftir undirskrift forsetans sem undirritar skjölin frá hverjum ráðherra með miklum tilþrifum- í grafarþögn viðstaddra. Síðan sest ráðherrann og næsti stendur upp og svo koll af kolli. Undir þessari serimóníu ríkir algjör þögn og eftir því er tekið ef einhver ráðherranna þarf að hósta eða ræskja sig við hið virðulega ríkisráðsborð meðan á lestri og undirritun forsetans stendur. Þessi leiðinlega athöfn tekur iðulega um klukkustund og stundum meira. “

 

Jóhanna setur fram þá hugmynd í bókinni, að slíkir fundir verði lagðir af í núverandi mynd og færðir í einfaldara form. Hvort  Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sé á sama máli skal hinsvegar ósagt látið, en vonandi er andrúmsloftið  öllu léttara á ríkisráðsfundum nýrrar ríkisstjórnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt