Eyjan

Forsætisráðherra vonast til að ljúka fjárlagavinnu í dag

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 5. desember 2017 12:09

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, reiknar með að ljúka vinnslu fjárlagatillagna í dag, en ríkisstjórnin fundar nú í forsætisráðuneytinu. Stefnt er á að Alþingi komi saman um miðjan desember þar sem hægt verði að afgreiða fjárlagafrumvarpið. Þetta kemur fram á Vísi.

„Ég vona það. Við auðvitað settum alla til verka núna á föstudaginn, á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vorum við aðeins búin að undirbúa stóru línurnar í stjórnarmyndunarviðræðunum.Þetta er auðvitað mikið verk en ég veit að það hefur verið unnið alla helgina í öllum ráðuneytum. Þannig að ég vonast til að við getum gengið frá þessu að mestu leyti á eftir,“

sagði forsætisráðherra við Vísi.
Gert er ráð fyrir að Alþingi starfi milli jóla og nýárs, en þar eru þrír virkir dagar sem hægt er að nýta til þingstarfa.

„Það tekur tíma eftir afgreiðslu fjárlaga út úr ríkisstjórn að ganga frá fjárlagafrumvarpinu þannig að það sé tækt til útbýtingar á Alþingi. Þannig að Alþingi mun ekki geta komið saman fyrr en um miðjan desember. Við munum ræða þingsetninguna hér á fundi á eftir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af