Eyjan

Síminn bregst við sekt Neytendastofu á Gagnaveitu Reykjavíkur

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 4. desember 2017 15:23

Gagnaveita Reykjavíkur, dótturfélag Orkuveitunnar, hefur verið sektuð af Neytendastofu um hálfa milljón króna vegna ummæla Erlings Freys Guðmundssonar, framkvæmdarstjóra, í garð Símans, líkt og kom fram fyrr í dag. Voru ummælin sögð gildishlaðin og ósanngjörn en þau birtust fyrst í aðsendri grein í Fréttablaðinu í nóvember í fyrra.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir það „vonbrigði“ að félag í eigu borgarinnar reyni að „hamla samkeppni.“

„Það eru vonbrigði að sjá dótturfélag Orkuveitunnar sem er í eigu borgarinnar endurtekið reyna að hamla samkeppni innan hennar og ástundi óheiðarlega viðskiptahætti. Það er von okkar að borgaryfirvöld beiti sér fyrir því að fyrirtæki í eigu borgarinnar vinni ekki ítrekað að því að skaða keppinauta sína og þar með neytendur.“

Þá segir einnig í tilkynningu frá Símanum:

Ein helsta vörn Gagnaveitunnar var að grein forstjórans væri persónuleg ummæli hans. Þau væru ekki sett fram í atvinnuskyni og ekki birt sem auglýsing. Neytendastofa benti á að félög geti eðli máls samkvæmt ekki tjáð sig sjálf. Líta verði til umfjöllunarefnisins og tengsla höfundar greinarinnar við fyrirtækið og því væri greinin á vegum Gagnaveitunnar. Þá benti Neytendastofa á að fyrirtæki gætu gert samanburð á þjónustu sinni og keppinauta en í innbyrðis samkeppni mætti ekki ráðast með auglýsingum sínum eða öðrum viðskiptaaðferðum að öðru fyrirtæki með ómálefnalegum og meiðandi hætti. Þá megi ekki ráðast að keppinauti i því skyni að skaða samkeppnisstöðu hans á markaði. Í ákvörðun Neytendastofu segir meðal annars:
„Neytendastofa fær ekki séð að vísun til okurs, áhrifa á kennsluhætti og skólastarf, forneskju í gagnaflutningum, hindrun þróunar atvinnu- og viðskiptahátta og uppgötvun ljósleiðara sé til annars ætluð en að kasta rýrð á Símann. Um er að ræða afdráttarlausar fullyrðingar án frekari skýringa þar sem notuð eru gildishlaðin neikvæð orð um starfsemi Símans. Telur Neytendastofa að fullyrðingarnar séu að þessu leyti ófullnægjandi og villandi. Þá er rangt með farið að því er varðar uppgötvun Símans á ljósleiðaratækni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af