fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Jón Þór og VR stefna kjararáði vegna launa ráðherra og þingmanna

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 4. desember 2017 09:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata. Mynd/DV

Stjórn VR, ásamt Jóni Þór Ólafssyni þingmanni Pírata, hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna ákvörðunar kjararáðs um gríðarlega hækkun á launum alþingismanna og ráðherra á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR.

VR telur nóg komið af aðgerðarleysi stjórnvalda og hefur því ákveðið að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Hækkun alþingismanna og ráðherra, sem jafngildir 36-44% hækkunar launa, er úr öllum takti við almennar hækkanir á vinnumarkaði. Þess er krafist að ákvörðunin sem stefnir stöðugleika á vinnumarkaði í bráða hættu, og hefur þannig bein áhrif á hagsmuni félagsmanna VR, verði tafarlaust ógilt með dómi.

 

Þegar fréttir bárust af ákvörðun kjararáðs var hún strax fordæmd um allt þjóðfélagið, jafnvel þannig að sjálfur forseti Íslands neitaði að taka við hækkuninni. Þjóðin vænti þess að stjórnvöld myndu strax láta afturkalla ákvörðunina með öllum tiltækum ráðum og lagasetningu ef á þyrfti að halda.

En ekkert hefur gerst.

VR telur að kjararáð hafi ekki farið að lögum við ákvörðun sína enda standi það skýrum stöfum í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð að ráðið skuli við ákvarðanatöku „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“. Í ákvörðun kjararáðs er hvergi minnst á hver þróun kjaramála á vinnumarkaði hafi verið þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um það. Rökstuðningur kjararáðs getur því ekki talist annað en geðþóttaákvörðun um laun æðstu handhafa löggjafar- og framkvæmdavalds á Íslandi.

Kjararáð er vant að rökstyðja ákvarðanir sínar með þeim orðum að þær séu byggðar á almennum hækkunum á vinnumarkaði. Í þetta skipti var rökstuðningur ráðsins frábrugðinn því sem almennt hefur tíðkast og ekki vísað í almenna þróun á vinnumarkaði heldur vísað til þess að eðlilegt sé að þingfararkaup sé það sama og laun héraðsdómara. Þessi rökleiðsla er marklaus með öllu, ekki aðeins er hún á skjön við sjálf lögin um kjararáð, heldur verður að teljast ólöglegt að miða við dómaralaun vegna ákvæða um sérstöðu dómara, sem er langt frá því að teljast sambærileg við stöðu alþingismanna.

Íslenska ríkið tók þátt í samkomulagi stéttarfélaganna um sátt og stöðugleika á vinnumarkaði með undirritun sinni á Saleksamkomulaginu svokallaða, sem það sjálft og allir aðilar vinnumarkaðarins tóku þátt í. Það er einfaldlega ekki boðlegt að ríkið grafi undan þessari sátt um stöðugleika með því að láta ótalið það sem verður að teljast ólögleg ákvörðun kjararáðs.

VR fagnar því þegar launahópar ná árangri í kjarabaráttu og fá hækkanir. Á því er engin breyting heldur snýst málið nú einfaldlega um að farið sé að lögum og einnig að ríkisvaldið standi sjálft við þá samninga sem það krefst að aðrir haldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt