Eyjan

Kjarkur Katrínar

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 17. nóvember 2017 09:19

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar: Það virðist ekki eiga sérlega vel við stóran hóp innan Vinstri grænna að horfast í augu við þá ábyrgð sem fylgir því að taka að sér stjórn landsins. Þar er einungis horft í eina átt – til vinstri – þrátt fyrir að úrslit nýafstaðinna kosninga hafi síst af öllu verið ákall um vinstri stjórn. Hinn knái formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, gerði sér grein fyrir þessu og sýnir þá víðsýni að horfa í aðra átt. Hún hóf stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsókn og viðbrögð innan flokksins vegna þessa hafa verið stórfurðuleg. Fjölmargir flokksmenn Vinstri grænna brugðust við með gráti og gnístran tanna og andlegu jafnvægi þeirra virtist ógnað. „Fullt tilefni til að gráta yfir þessari frétt,“ sagði Sóley Tómasdóttir. „Auðvitað eru margir með ónot í maganum við þessa tilhugsun að fara að vinna með Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir. Á netmiðlum fóru andstæðingar samstarfsins hamförum og spöruðu ekki gífuryrðin. Sá munnsöfnuður er ekki til fyrirmyndar en reyndar lítt marktækur. Það er ansi erfitt að taka mark á fólki sem er öllum stundum í krónísku reiðikasti. Hörðustu orðin sem féllu frá Vinstri grænum vegna sjálfsagðra stjórnarmyndunarviðræðna flokksins við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk bera vott um ofstæki. Það var líkt og formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, hefði ákveðið að selja sálu sína og gert samkomulag við Kölska sjálfan.

Úr ranni Vinstri grænna heyrist að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki stjórntækur. Helst til mikið yfirlæti felst í þeirri yfirlýsingu. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins með 25 prósenta fylgi. Það er ekki rétt að enginn hafi kallað eftir því að hann færi í ríkisstjórn. Nokkuð stór hluti landsmanna treystir Sjálfstæðisflokknum einmitt mæta vel til þess.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ætti að eiga hljómgrunn meðal landsmanna. Þarna er vinstri flokkur í forsæti og starfar með hægri flokki og sómasamlegum miðflokki. Þetta er ekki ríkisstjórnarsamstarf flokka sem eru líklegir til að gera kerfisbreytingar en ættu þó að geta sammælst um góð verk, eins og eflingu heilbrigðiskerfis og menntakerfis, og eru einnig líklegir til að viðhalda mikilvægum stöðugleika.

Hið stóra tromp þessarar ríkisstjórnar – og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verða að átta sig á því – er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem nýtur trausts þvert á flokka. Í hugum fjölmargra landsmanna er hún fyrsti kostur sem forsætisráðherra og reyndar sá langbesti. Vinstri græn eiga að fagna því að eiga tækifæri til að komast til forystu í landsmálum með glæsilegan forsætisráðherra. Það þarf kjark til að leiða ríkisstjórn og takast á við erfið verkefni. Hvað sem fólki finnst um Vinstri græn og stefnu þeirra þá er ljóst að Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt djörfung og dug. Vonandi dugar kjarkur hennar alla leið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tour of Reykjavík 2018