Eyjan

Sporin eiga að hræða

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 3. nóvember 2017 06:00

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar: Örstutt er síðan Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi í skjóli nætur án þess að ræða við samstarfsflokka sína, Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Þar voru samræðustjórnmál ekki í heiðri höfð. Afleiðingar þessa ábyrgðarleysis urðu vitanlega þær að þjóðin gerði sér fulla grein fyrir að flokki sem stundar vinnubrögð af þessu tagi er ekki treystandi. Björt framtíð þurrkaðist út af þingi. Þingmenn flokksins hafa því miður ekki horfst í augu við það hversu ámælisverð vinnubrögð þeirra voru við stjórnarslitin heldur endurtaka í sífellu að þeir hafi staðið með sannfæringu sinni. Þeir láta eins og þeir hafi fallið með reisn þegar staðreyndin er sú að þeir gerðu sig að ómerkingum.

Sporin ættu að hræða, en samt ætla formenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingar að láta á það reyna að sameinast í ríkisstjórnarsamstarfi með Pírötum. Þar yrði á ferð stjórn með minnsta mögulega meirihluta, líkt og sú síðasta. Ekki væri það gott en enn verra er að varasamt er að treysta á úthald Pírata í stjórnarsamstarfi. Í þeim flokki er ekki strangur innri strúktúr, enginn áhugi er á að halda í hefðir heldur er stöðugt verið að reyna að finna upp hjólið og auk þess þykja tilfinningaupphlaup af minnsta tilefni nánast sjálfsögð. Slíkur flokkur er ekki sérlega líklegur til að sýna ábyrgð í ríkisstjórnarsamstarfi. Samstarf við Pírata yrði afar erfitt og ekki hægt að treysta því að þar myndi grasrótin vera til friðs. Líkt og grasrót Bjartrar framtíðar gæti grasrót Pírata allt eins tekið upp á því að efna til netkosninga og slíta stjórnarsamstarfi hið snarasta kæmi upp ágreiningur innan stjórnarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á að vita að ekki er óhætt að treysta á Pírata. Þetta ætti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sömuleiðis að vita. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, getur látið eins og hann trúi öðru, enda þráir Samfylkingin að öðlast völd og komast aftur til vegs og virðingar, en innst inni hlýtur einnig hann að vita þetta. Viðræður stjórnarandstöðuflokkanna geta ekki verið annað en sýndarmennska fólks sem veit betur.

Vonlítið er að þessi fjögurra flokka stjórn verði að veruleika en jafnvel þótt svo verði eru sáralitlar líkur á því að hún yrði langlíf. Hugmyndir hafa skotið upp kollinum um fimm eða sex flokka stjórn og satt best að segja hljóma þær eins og óðs manns æði. Þar yrði fljótlega hver höndin uppi á móti annarri. Píratar myndu ólmast og Flokkur fólksins myndi aldrei fá brýnustu stefnumál sín í gegn, svo kostnaðarsöm eru þau. Það er einungis tímaspursmál hvenær ríkisstjórn sem samsett væri af svo mörgum og ólíkum flokkum myndi deyja drottni sínum. Hún myndi ekki kveðja hægt og hljótt heldur springa með miklum látum.

Stjórnmálaflokkarnir verða að vanda sig við stjórnarmyndun og útkoman verður að vera trúverðug. Þjóðin er orðin leið á sífelldu upphlaupi stjórnmálamanna og stjórnarslitum af litlu tilefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af